Bókasafnið okkar

By 15. janúar, 2007Uncategorized

Bókasafn Samtakanna ’78 er svo sannarlega falinn gimsteinn. Ég man það vel frá fyrstu árum mínum í Samtökunum þegar þau voru til húsa á Skólavörðustíg 12 gegnt Hegningarhúsinu að ég uppgötvaði bók í bakherberginu sem hét Rubyfruit Jungle eftir Ritu Mae Brown. Þvílík uppgötvun fyrir 17–18 ára gamla stúlku sem gat engan veginn samsamað sér þeim fyrirmyndum sem þá prýddu götur bæjarins að undanskilinni „Flírukonunni“ og einni stúlkunni úr klíkunni sem gjarnan var kölluð „Mublurnar“.

Þó að kynhneigð þeirra væri algerlega á huldu var einhver ljómi yfir þeim sem leyfði manni að dreyma. Já, ævintýraheimurinn sem opnaðist mér á bókasafni Samtakanna ’78 færði mér vitneskjuna um það  að til væri annar heimur utan íslensku grámyglunnar sem á þessum árum var töluverð. Oftast var ekki margt annað við að vera en að skella í sig Martini Bianco eða bjórlíki (vodka í pilsner), klæða sig svo upp í stóran jakka með þykkum axlapúðum og drífa sig í partý. Nei, það var ekki beint spennandi. Allar götur síðan hef ég notfært mér þetta merkilega safn í öllum þeim húsakynnum sem okkur hefur hýst.

Mér er minnistætt safnið á efri hæðinni á Lindargötu 49. Hún var eitthvað svo kósý, stemmningin þar, enda var þetta eini staðurinn í húsinu þar sem að reykingar voru bannaðar. Oft hefur maður hitt athyglisvert fólk milli bókaskápanna sem ekki lætur sjá sig annars staðar á vettvangi, og þau eru ófá, hommarnir og lesbíurnar, sem hafa stigið sín fyrstu skref í hinum samkynhneigða heimi með það að yfirvarpi að vera að skrifa ritgerð í skólanum og leita á náðir safnsins. Á síðustu árum hefur nýr safnflokkur bæst við þann glæsilega fræði- og skáldritakost sem safnið geymir og það eru blessaðar kvikmyndirnar. Ég fullyrði að þarna er að finna langbesta safn gay kvikmynda á landinu. Þarna getur fólk skoðað megnið af hinni merkilegu kvikmyndasögu samkynhneigðra og stuðst m.a. við frábæra bók sem rekur þessa sögu og er einnig að finna í safninu, The Celluloid Closet eftir Vito nokkurn Russo sem ég var svo lánsöm að hitta og aðstoða við söfnun á kvikmyndum í San Francisco á sínum tíma.

Einn er sá sem hefur verið manna duglegastur að bygja upp þetta veglega safn og það er Þorvaldur okkar Kristinsson. Á síðustu árum hefur hann haft veg og vanda af því að kaupa inn tímarit, bækur og myndbönd/diska í sjálfboðavinnu, enda væri safnið hvergi til ef ekki nyti sjálfboðaliðanna okkar sem manna þar vaktir öll mánudags- og fimmtudagskvöld kl. 20–23 svo og alla laugardaga á veturna kl. 13–17.

Á næstunni er ætlunin að kynna reglulega bækur og kvikmyndir sem safnið hefur að geyma, og við hvetjum allt það fólk sem ekki hefur enn uppgötvað og nýtt sér safnið að koma á vettvang og kynna sér gimsteininn.

Pistill þessi birtist fyrst í Fréttabréfi Samtakanna '78 í janúar 2007

5,775 Comments

Skrifaðu athugasemd