Búa hommar og lesbíur bara í Reykjavík?

By 1. febrúar, 2007Uncategorized

Hinn 4. nóvember sl. var haldin málstofa með stjórn og trúnaðarráði Samtakanna ’78. Að þessu sinni voru fræðslu- og jafnréttismál í brennidepli og hlýddu fundargestir á fjölmörg áhugaverð erindi.

Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Baldur Þórhallsson, prófessor við Háskóla Íslands, Hrafnhildur Gunnarsdóttir, formaður Samtakanna ’78, Ingibjörg Guðmundsdóttir, formaður FAS, Sara Dögg Jónsdóttir, kennari, og Þorvaldur Kristinsson. Frá Akureyri komu þeir Sverrir Páll Erlendsson, kennari, og Gunnar Gíslason, deilarstjóri skóladeildar Akureyrar, og sögðu frá því frábæra starfi sem þar er unnið á sviði fræðslumála og reynsluna af því. Valgerður Janusdóttir, verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurborg, kynnti starf á vettvangi menntasviðs Reykjavíkurborgar og vinnu starfshóps sem í eiga sæti fulltrúar menntasviðs, FAS og Samtakanna ’78, en hópurinn hefur lagt fram tillögur að fræðslu um samkynhneigð meðal fagfólks í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Hægt er að hlusta og horfa á nokkur erindanna hér á síðunni.

Sveitarfélögum boðið í heimsókn

Sveitarfélagum á suðvesturhorni landsins var boðið að taka þátt í málstofunni og kynna stefnu sína í jafnréttis- og fræðslumálum lesbía og homma. Þó svo að nokkur umræða eigi sér stað um málefni samkynhneigðra ber lítið á mótaðri stefnu í þeim efnum. Á undanförnum árum hefur Reykjavíkurborg verið ötulust sveitarfélaga að sýna málefnum lesbía og homma áhuga, en borgin hefur m.a. gert þjónustusamning við Samtökin og styrkt Hinsegin daga í Reykjavík svo nokkuð sé nefnt.
 

Hvar eru hin sveitarfélögin?

Samkynhneigðir búa víðar en í Reykjavík þótt þeir veki þar kannski mesta eftirtekt. Um þriðjungur félaga í Samtökunum ’78 býr annars staðar en í Reykjavík, flestir í nágrannasveitarfélögunum Hafnarfirði, Kópavogi, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ og Árborg. Í þjónustu- og menningarmiðstöð Samtakanna ’78 koma hommar og lesbíur af öllu landinu, félagið gegnir mikilvægu samfélagslegu hlutverki og þar starfar fólk sem hefur mikla þekkingu og innsýn í málefni samkynhneigðra. Í nær sex ár hafa t.d. félagsráðgjafar á vegum félagsins tekið á móti fjölda fólks sem er að stíga sín fyrstu skref til sáttar við sjálft sig. Þessi þjónusta er gríðarlega mikilvæg og hefur hjálpað fjölmörgum á erfiðu skeiði ævinnar. Þjónustusamningur Reykjavíkurborgar og Samtakanna ’78 hefur gert félaginu mögulegt að bjóða upp á þessa þjónustu. Á vettvangi Samtakanna ’78 starfa líka fjölmargir starfshópar sem gegna mikilvægu hlutverki í starfi félagsins eins og ungliðahópurinn sem er eina athvarf samkynhneigðra ungmenna sem eru að stíga sín fyrstu skref út í lífið (sjá lista yfir starfshópa).Það er nauðsynlegt að kynna forustufólki sveitarfélaga það mikilvæga starf sem fer fram á vettvangi Samtakanna ’78, og málþingið sl. haust var viðleitni í þá átt. Málefni samkynhneigðra ná út fyrir hreppa og sýslur. Vonandi tekst okkur að vekja áhuga sveitarfélaga á starfsemi félagsins og fá þau til að leggja starfi okkar lið með einum eða öðrum hætti.

Copyright © Samtökin ´78. Frosti Jónsson: Fréttabréf Samtakanna ´78 1. tbl. janúar 2007
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

 

10,968 Comments

Skrifaðu athugasemd