Gallerí 78 kynnir sýninguna Uppbrot sem verður opnuð á menningarnótt, laugardaginn 19. ágúst kl. 17 í Suðurgötu 3.
Listatvíeykið Sigga og Madda hafa unnið náið saman í list sinni og skapað sameiginleg verk undir nafninu Sigmar Stórholt sem er þeirra svokallaða „alter ego”. Afrakstur þessarar samvinnu er viðfangsefni sýningarinnar. Sýningarstjóri er Ásdís Óladóttir.
„Skynheild er okkur hugleikin og hugmyndir Gestalt sálfræðinnar um mat okkar á veruleikanum, þar sem heildin er meira en hlutar hennar samanlagðir. Í verkum okkar erum við að leika okkur með þessa skynjun hluta og tilhneigingu okkar til að búa til heildir úr pörtum til að skilja umhverfi okkar. Með því að raða kunnuglegum pörtum upp á óræðan hátt verður til ný og önnur heild, einnig hrærum við upp í kunnuglegri heild til að búa til nýja parta sem svo aftur búa til nýja skynheild, sem sagt flækjur“.
Sigríður Helga Hauksdóttir stundaði nám við Buckinghamshire College of Brunel University í Englandi á árunum 1993 – 1996 og lauk námi í Three Dimensional Multi – Disciplinary Design. Margrét Óskarsdóttir nam hins vegar bókmenntir og heimspeki við Háskóla Íslands auk þess sem hún lærði leiklist og kvikmyndagerð í Bandaríkjunum í The American Academy of Dramatic Arts og Hunter College og lauk þaðan námi árið 1999.
Haustið 2015 hófu Samtökin 78 rekstur sýningarsalar, Gallerís 78, í félagsheimili samtakanna, að Suðurgötu 3, í Reykjavík. Markmið Gallerís 78 er að rannsaka, miðla og stuðla að varðveislu listaverka sem sköpuð eru af hinsegin fólki á Íslandi. Með því er leitast við að gera menningararf hinsegin fólks sýnilegan, svo sem með gerð kynningarefnis, umfjöllun á opinberum vettvangi og uppsetningu listsýninga. Frá því galleríið var stofnað hefur þar verið rekin metnaðarfull sýningarstefna í björtum og fallegum húsakynnum.
Thank you for your sharing. I am worried that I lack creative ideas. It is your article that makes me full of hope. Thank you. But, I have a question, can you help me?