Gleðifréttir

By 14. júní, 2012Fréttir

Sá gleðilegi atburður gerðist á dögunum að Alþingi samþykkti frumvarp velferðarráðherra til laga um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda. Lögin kveða einkum á um úrbætur sem snúa að stjórnsýslu og málsmeðferð, tilhögun kynleiðréttinga og nafnabreytingar í þjóðskrá.

Í lögunum er kveðið á um rétt einstaklings með kynáttunarvanda til heilbrigðisþjónustu og um hlutverk teymis Landspítala um kynáttunarvanda sem hefur umsjón með greiningu og viðurkenndri meðferð.

Eftir að meðferð og reynslutímabili í gagnstæðu kynhlutverki lýkur, samtals 18 mánaða tímabili að lágmarki, og að uppfylltum öðrum skilyrðum, getur viðkomandi sótt um staðfestingu á því að hann tilheyri gagnstæðu kyni.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra skipaði nefnd til að gera tillögur um úrbætur á grundvelli álits umboðsmanns Alþingis og í mars síðastliðnum skilaði hún ráðherra drögum að frumvarpinu sem nú er orðið að lögum. Í þessari nefnd sat m.a. Anna Kristjánsdóttir, fyrir hönd Trans-Íslands sem er hagsmunafélag Samtakanna ´78. Við færum Önnu og hinum sem sæti áttu í nefndinni bestu þakkir fyrir vel unnin störf og hamingjuóskir með framgang mála.

Þetta er svo sannarlega stærsti áfangasigur Transfólks á Íslandi og þó víðar væri leitað. Því ber að sjálfsögðu að fagna og undirbúa nú Samtökin ´78 í samstarfi við Trans Ísland fögnuð þann 27. júní 2012, þegar lögin ganga í gildi. Hátíðin verður auglýst nánar innan skamms. 

Samtökin ´78 óska Transfólki innilega til hamingju með áfangasigurinn 🙂

One Comment

Skrifaðu athugasemd