Vilt þú taka þátt í að stýra Samtökunum ‘78?

By 17. júní, 2015Fréttir
Samtökin ‘78 óska eftir að ráða framkvæmdastjóra til félagsins sem fyrst. Við leitum að öflugri manneskju til að leiða spennandi og krefjandi starf þar sem reynir á frumkvæði, samskiptahæfni, útsjónarsemi og skipulögð vinnubrögð. Framkvæmdastjóri er eini starfsmaður félagsins í fullu starfi en stefnt er að fleiri stöðugildum með bættum fjárhag. Auk hans koma að starfinu stjórn og trúnaðarráð, ráðgjafar og umsjónarfólk ungliða- og fræðslustarfs. Þá sinnir fjöldi annarra sjálfboðaliða öllu frá umsjón félagsmiðstöðvar að skipulagi og framkvæmd ýmissa viðburða og verkefna. Skráðir félagar eru rétt um 1.100.
 
Helstu verkefni og ábyrgð
 
  • Daglegur rekstur, fjáröflun og eftirfylgni: Framkvæmdastjóri stýrir daglegum rekstri skrifstofu, sér um fjáröflun, reikninga og samninga, starfsmannahald, samskipti og heldur utan um þjónustu og verkefni. Undirbýr verk- og rekstraráætlanir í samstarfi við stjórn og heldur utan um gögn og fundargerðir. Framkvæmdastjóri fylgir eftir stefnu félagsins, ákvörðunum stjórnar og samþykktum aðal- og félagsfunda.
  • Upplýsingar og samskipti: Framkvæmdastjóri talar fyrir Samtökin ‘78 í samráði við stjórn. Hann stuðlar að góðum samskiptum við starfshópa, félagsfólk, almenning, yfirvöld og aðrar stofnanir samfélagsins. Í þessu felst m.a. að hafa umsjón með fréttatilkynningum og annarri upplýsingamiðlun, t.d. á vefsvæði og samfélagsmiðlum.
  • Hagsmunabarátta: Framkvæmdastjóri gætir, í samráði við stjórn, hagsmuna félaga gagnvart löggjafa og öðrum stofnunum samfélagsins. Í því felst m.a. að veita umsagnir um lagafrumvörp og stofnanauppbyggingu, taka þátt í nefndastarfi og standa vörð um réttindi félagsfólks gagnvart opinberri stjórnsýslu.
  • Fræðslustarf: Framkvæmdastjóri hefur í samráði við stjórn yfirumsjón með fræðslustarfi félagsins. Í því felst mótun þess og framkvæmd í samvinnu við sjálfboðaliða og opinbera aðila.
Menntunar- og hæfniskröfur
 
  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi.
  • Mikil þekking á sögu og þróun hinsegin samfélagsins og stöðu og þörfum þeirra ólíku einstaklinga sem það byggja, ásamt þekkingu á hugtökum og beitingu þeirra.
  • Framúrskarandi samskipta-, frumkvæðis- og skipulagshæfileikar.
  • Mjög gott vald á íslensku og ensku.
  • Reynsla af stjórnunarstörfum er æskileg.
  • Þekking á sjálfboðastarfi og þjónustu er mikill kostur.
  • Þekking á opinberri stjórnsýslu og helstu stofnunum er mikill kostur.
  • Þekking á samningagerð er kostur.
Umsókn, frestur og fylgigögn
 
Umsóknarfrestur er til og með 30. júní 2015. Samtökin '78 fagna fjölbreytileika samfélagsins í sinni víðustu mynd og leitast í öllu starfi sínu við að vera fordómalaus vettvangur þar sem borin er virðing fyrir öllu fólki og því sköpuð tækifæri. Við hvetjum því alla til að sækja um – óháð kynhneigð, kynvitund eða -tjáningu, fötlun, þjóðerni, kynþætti eða öðrum breytum.
 
Umsókn, ásamt ferilskrá og kynningarbréfi þar sem gerð er grein fyrir hæfni umsækjanda til að gegna stöðunni ásamt framtíðarsýn varðandi starfið og félagið skulu send Hilmari Hildarsyni Magnúsarsyni, formanni í netfangið formadur@samtokin78.is. Upphaf ráðningar og starfskjör fara eftir samkomulagi aðila. Formaður gefur allar nánari upplýsingar í sama netfangi. Fullum trúnaði heitið.
 
Um Samtökin ‘78
 
Samtökin '78 eru hagsmuna- og baráttusamtök hinsegin fólks á Íslandi. Markmið félagsins er að samkynhneigt, tvíkynhneigt, pankynhneigt, asexual, intersex og trans fólk, einu nafni nefnt hinsegin fólk, sé sýnilegt og viðurkennt og njóti fyllstu réttinda í íslensku samfélagi. Þannig vilja samtökin byggja upp samfélag lífsgæða og hamingju fyrir okkur öll. Samtökin ‘78 vinna að markmiðum þessum með því:
 
  • að skapa hinsegin fólki félagslegan og menningarlegan vettvang og styrkja þannig sjálfsvitund þess, samkennd og samstöðu um sérkenni sín.
  • að vinna að baráttumálum hinsegin fólks, svo og fræðslu um reynslu þess og sérkenni, eftir þeim leiðum sem árangursríkastar þykja hverju sinni svo sem á vettvangi löggjafarvalds, í opinberu fræðslukerfi og í fjölmiðlum.
  • að eiga samstarf við sambærileg samtök, hópa og áhugafólk hérlendis og erlendis sem stefna að sömu markmiðum; styðja önnur félagasamtök, sem vinna að mannréttindum, og afla stuðnings þeirra.
Í þessu skyni halda Samtökin ‘78 úti fræðslustarfi, ungliðastarfi, ráðgjöf og stuðningi, fjölbreyttri menningar- og félagsstarfsemi, ásamt því að berjast fyrir mannréttindum og lífsgæðum hinsegin fólks allan ársins hring. Þessi starfsemi verður öll hýst í nýrri félags- og menningarmiðstöð að Suðurgötu 3 í Reykjavík sem brátt verður opnuð. 
 
 
 

Skrifaðu athugasemd