Í minningu Guðna Baldurssonar

By 18. júlí, 2017Fréttir

Staðurinn þar sem margir hittu Guðna Baldursson fyrst lét ekki mikið yfir sér, gluggalaust kjallaraherbergi í Garðastræti 2, en í hugum þeirra sem komu þangað var það samt bjartasta herbergið í bænum, griðastaður fullur af björtum vonum og baráttuþreki. Þetta var fyrsta húsnæði Samtakanna 78 og þar tók Guðni á móti félögum með alúð og vinsemd og baráttuandinn var ekki síst honum að þakka.

Guðni var fyrsti formaður Samtakanna, vann ötullega fyrir þau og opnaði heimili sitt fyrir félögum svo það var stundum eins og félagsheimili. Hann var vel lesinn og fróðleiksfús og fylgdist vel með þróun í baráttu samkynhneigðra erlendis, aflaði sér fræðibóka og var áskrifandi að fjölda tímarita sem sáust annars hvergi hér á landi. Guðni var óþreytandi að skrifa fræðandi greinar í blöð og brást við þegar samkynhneigðir voru beittir misrétti eða ofbeldi. Hann hikaði ekki við að standa fyrir málstaðnum undir nafni og með mynd sem var engan veginn sjálfsagt á þessum árum. Hvernig ástandið var sést til dæmis á því að þegar Guðni tók sæti á framboðslista Bandalags jafnaðarmanna sem formaður Samtakanna 78 var því harðlega mótmælt af mörgum flokksmönnum.

Guðni var hugaður baráttumaður. Hann var ekki bara formaður Samtakanna 78 frá stofnum til 1985 heldur starfaði hann ótrauður eftir það að réttindabaráttu í nefndum á vegum Alþingis og var næstum þrjá áratugi í stjórn HIV-Ísland.

Nú þegar við kveðjum Guðna Baldursson er okkur efst í huga að þakka fyrir allt hans mikla og óeigingjarna starf. Eftir situr minningin um góðan dreng og félaga.

Böðvar Björnsson

Samtökin '78 vilja bjóða öllum þeim sem vilja minnast Guðna í kaffisamsæti fimmtudaginn 20. júlí klukkan 17 í húsnæði Samtakanna að Suðurgötu 3.

42 Comments

Skrifaðu athugasemd