Árangurslausar og skaðlegar „lækningar“

By 4. nóvember, 1999Uncategorized

Síðustu vikur hafa birst greinar í Morgunblaðinu sem fullyrða að samkynhneigð sé "læknanleg". Þessa fullyrðingar hafa greinahöfundar notað hver frá öðrum í greinum sínum án þess að gera frekari grein fyrir staðreyndum málsins. Öll helstu samtök og stofnanir í heilbrigðisgeira Bandaríkjanna hafa gefið yfirlýsingar um að engin "lækning" sé til og vara jafnvel við skaðsemi slíkra tilrauna. Tími ætti að vera kominn til að eyða óvissu lesenda Morgunblaðsins um meinta lækningu og skýra frá staðreyndum og rannsóknum.

Í Bandaríkjunum eru til hópar sem telja sig geta læknað samkynhneigð. Sú stofnun, sem mesta athygli hefur vakið, er NARTH (National Association for Research and Therapy of Homosexuality). Stofnunin samanstendur af 850 meðferðarsérfræðingum af ýmsum menntunarstigum. NARTH er sú stofnun sem kirkjur í Bandaríkjunum leita mest til í baráttu sinni gegn samkynhneigð enda er hún sú eina skipuð menntuðum sérfræðingum sem halda því fram að samkynhneigð sé læknanlegur sjúkdómur.

Stofnunin hefur sett fram stefnuskrá þar sem fullyrt er:

  • að samkynhneigð sé líklega mest misskildi kynferðislegi kvilli sem til er,
  • að rannsóknum á samkynhneigð hafi verið breytt fyrir tilstilli samtaka samkynhneigðra,
  • að með samsæri hafi rannsóknarmenn á sviði kynhneigðar verið neyddir til að þegja um rannsóknir sínar,
  • að ýmis samtök haldi því fram að afbrigðileg kynhneigð sé eðlilegt líferni,
  • að flestum samkynhneigðum megi breyta í gagnkynhneigða með viðeigandi meðferð.
  • Þessar fullyrðingar stangast þó á við yfirlýsingar allra annarra sérfræðistofnanna og samtaka í Bandaríkjunum.

Bandaríska sálfræðingafélagið (APA, American Psychological Association), sem 159 þúsund sálfræðingar eiga aðild að, hefur sent frá sér þá yfirlýsingu að "engar birtar [útgefnar] rannsóknir styðji þá fullyrðingu að til sé meðferð sem breytt geti kynhneigð fólks". Önnur fagfélög, s.s. geðlækna, félagsráðgjafa og barnalækna, hafa öll lýst því sama yfir. Tvö þessara samtaka hafa einnig lýst áhyggjum sínum vegna skaðsemi slíkra meðferða. Þær valdi sumu fólki alvarlegum skaða. Hjá bandaríska sálfræðingafélaginu og geðlæknafélaginu hafa verið uppi hugmyndir um að bóka þessar aðferðir siðlausar og svipta hvern þann réttindum sem hana stundar.

Hér á landi hefur landlæknir, Sigurður Guðmundsson, tekið af allan vafa í grein sinni sem ber yfirskriftina "Samkynhneigð er ekki sjúkdómur", sem birtist í Morgunblaðinu 27. október síðastliðinn.

Einnig hefur Bandaríska læknafélagið (American Medical Association) mælt gegn meðferð við samkynhneigð. Miklar áhyggjur eru af tilfellum þar sem ósjálfráða unglingar hafa verið neyddir gegn vilja sínum í meðferð hjá bókstafstrúarhópum. Í sumum tilfellum hafa unglingar verið vistaðir á svokölluðum geðsjúkrahúsum öfgahópa í slíkri meðferð. Slíkur er ofstopinn að nauðsynlegt hefur verið að starfrækja hjálparstofnanir sem taka á móti unglingum og börnum sem flýja slíka meðferð.

Kenning stofnunarinnar NARTH er sú að samkynhneigð sé orsök brests í sálarlífi einstaklingsins og brenglaðar tilfinningar til eigin kyns megi rekja til barnæsku hans. Samkynhneigðir karlmenn reyni t.a.m. að bæta upp þessa brenglun með að hafa samneyti við aðra karlmenn. Þetta myndi kynferðislega tengingu við heim karlmanna. Stofnunin staðhæfir að með þetta í huga megi greiða úr þeim sálarflækjum sem hái samkynhneigðum.

Þessar kenningar eru þó ekki annað en afbakaðar kenningar Sigmund Freuds lagaðar að stefnuskrá umræddra samtaka. Í hugum sálfræðinga gegna slíkar kenningar Freuds aðeins sögulegu hlutverki.

Stofnunin beitir klassískri viðtalsmeðferð þar sem viðskiptavinurinn situr í sófa og ræðir við sérfræðing í 3-5 klukkustundir á viku. Meðferðin tekur 8 til 11 ár. Sumir innan stofnunarinnar telja sig þó geta náð árangri á styttri tíma.

Þó mikið hafi verið reynt að "lækna" samkynhneigða með ýmsu móti þá hafa fáar rannsóknir verið gerðar á árangri slíkra tilrauna. Ástæðan kann helst að vera sú að allar vandaðar rannsóknir hafa gefið til kynna að ekki sé til lækningarmeðferð við samkynhneigð, enda sé orðið viðurkennt að ekki sé um sjúkdóm að ræða. Þó liggja fyrir ýmsar rannsóknir, bæði um árangur og mögulega skaðsemi slíkra tilrauna.

Þær fáu kannanir sem benda til að hægt sé að "lækna" samkynhneigð hafa enn ekki verið birtar í neinum virtum vísindatímaritum. Þær hafa ekki þótt uppfylla þau skilyrði sem rannsóknir þurfa að gera til að teljast marktækar og hefur þá ýmislegt verið talið til:

  • Þátttakendur eru enn í meðferð þegar könnun er framkvæmd. Má ætlað að vonir fólks til árangurs séu miklar á þeim tíma.
  • Ekki er gerður greinarmunur á samkynhneigðum og tvíkynhneigðum. Það er talið til árangurs þegar tvíkynhneigðir einskorða makaval sitt við gagnstætt kyn.
  • Ekki er gerður greinarmunur á samkynhneigðum tilfinningum fólks og hegðun. Það er talið til árangurs þegar fólk hættir að lifa samkynhneigðu lífi en hneigist þó enn til sama kyns.
  • Fólk sem lifir skírlífi er talið hafa læknast.
  • Framkvæmdaraðilar rannsóknanna eru sjálfir sannfærðir um að hægt að lækna samkynhneigð og haf
    a atvinnu af rekstri slíkrar þjónustu.
  • Hópur þátttakenda er of einsleitur. T.d. er of margt fólk í trúarhópum sem leitar lækninga til að frelsast frá syndum sínum.
  • Árangur er ekki mældur jafnt og þétt yfir tímabil meðferðarinnar.
  • Árangur er ekki staðfestur með mælingum nokkrum árum eftir meðferð.
  • Ekki hefur tekist að endurtaka tilraunirnar af óháðum aðilum með árangri.

Þar sem engar marktækar rannsóknir benda til hægt sé að lækna samkynhneigð hafa augu manna frekar beinst að hugsanlegri skaðsemi slíkra meðferða. Nokkrar rannsóknir liggja fyrir sem benda til að jafnvel ?mannúðlegar? aðferðir geti skaðað þátttakendur. Niðurstöður slíkra rannsókna gefa til kynna að mjög oft verði þátttakendur afar þunglyndir eftir tilraunir til lækninga. Slíkt valdi hegðun sem sé þeim skaðleg: sjálfsmorðstilraunum, sjálfshatri, eiturlyfjamisnotkun og áhættusömu kynlífi. Einnig veldur það óstöðugleika í fjölskyldum þegar foreldrum er kennt um samkynhneigð barna sinna vegna rangs uppeldis.
Flestu fólki er ljóst að samkynhneigð er ekki sjúkdómur. Allt virðist benda til að fólk sem haldi öðru fram sé einfaldlega óupplýst um rannsóknir á þessu sviði eða haldið fordómum sem má rekja til fáfræði. Aldrei hefur tekist að breyta kynhneigð fólks, þó að fólki hafi tekist að breyta hegðun sinni. Það er mannfyrirlitning að ætlast til þess að fólk lifi gegn eigin tilfinningum.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 4. nóvember 1999

-Alfreð Hauksson

Copyright © Morgunblaðið 2004
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

 

5,773 Comments

Skrifaðu athugasemd