Frettir
Klaus Wowereit, hinn samkynhneigði borgarstjóri Berlínar, hefir heitið að beita sér gegn áætluðum niðurskurði á fjárframlögum til margvíslegrar félagsstarfsemi homma og lesbía. „Þessi starfsemi er nú þegar fjársvelt og það má ekki skerða þennan stuðning frekar,“ sagði hann í viðtali við blaðið Siegesseule í september í fyrra og í nýlegu viðtali ítrekar hann þau orð sín. „Ég stend við það sem ég sagði þá og vona að fjárveitingavaldið hætti við fyrirhugaðan niðurskurð. Ég er enn þeirrar skoðunar að þessi málefni hljóti ekki þann fjárstuðning sem þau þarfnast.“ Borgarstjórinn lýsir vonbrigðum sínum með sparnaðartillögur Senatsjugendverwaltungsem er það ráð er með slík mál fer í borginni.
„Tillögur um niðurskurð til málefna samkynhneigðra er gömul saga og ný hjá ráðinu. Hér áður fyrr, þegar ég sat í fjárveitinganefnd, gat ég lagt hönd á plóg til þess að koma í veg fyrir að þær næðu fram að ganga. Það hryggir mig að það fagráð er um málið fjallar skuli ekki sýna meiri ábyrgð.“
En þótt hommar og lesbíur þykist eiga hauk í horni þar sem Wowereit er, fer það fyrir brjóstið á öðrum að borgarstjóri helstu borgar Þýskalands skuli vera samkynhneigður. Ekki síst kollegum í sveitastjórnarpólitíkinni. Í frétt í fyrri viku sagði frá því að borgarstjóri Düsseldorf hefði haft um það hæðiyrði að senda alla homma til Berlínar. Og þá væntanlega undir pilsfaldinn til Klaus Wowereits.
Í fyrra gerðist það í garðveislu í borginni Brandenburg að borgarráðsmaðurinn Dieter Höpner hreytti í borgarstjóra Brandenburgar, Helmut Schliesing, að viðstöddum broddborgurum staðarins, að hann væri orðinn ?pervert eins og Wowereit?. Bætti borgarráðsmaðurinn því við ræðu sína að Hitler hefði farið rétt að er hann sendi hommana í gasklefana.
Klaus Wowereit stefndi manninum, sem er fyrrverandi flokksbróðir hans, og fyrir skömmu lauk því máli með því að hann var dæmdur í sex mánaða fangelsi og 2000 evru sekt fyrir meiðyrði. Dómarinn taldi manninum það til vorkunnar að hann var drukkinn í teitinu og því er dómurinn skilorðsbundinn en evrurnar 2000 ber honum að greiða, eða skila í formi samfélagsþjónustu, friðarsamtökum er berjast gegn hatri og skorti á mannúð.
Siegesseule
#tesirliayırmabüyüsü