Ræða formanns á félagsfundi

By 22. nóvember, 2019maí 21st, 2020Fréttir, Hagsmunabarátta

Ræða formanns á félagsfundi 9. nóvember 2019.

Elsku félagar í Samtökunum ‘78.

Verið hjartanlega velkomin á seinni lögboðna félagsfund ársins 2019, félagsfund að hausti. Mér þykir afskaplega gaman að vera hér á Þjóðminjasafni Íslands þar sem leiðarvísir um aðalsýningu Þjóðminjasafnsins, Regnbogaþráðurinn, hefur verið uppi í hartnær ár, en hún bendir fólki á hulinn hluta Íslandssögunnar sem er saga hinsegin fólks hér á landi. Við getum auðvitað með mikilli vissu sagt að sú saga er miklu lengri en 41 árs saga Samtakanna ‘78.

Samtökin ‘78 eru, eins og þið vitið, lítil samtök sem hafa, þrátt fyrir smæð sína og í raun ansi takmarkað bolmagn, mikil áhrif og umtalsvert dagskrárvald í samfélaginu okkar. Þetta getum við auðvitað vegna þess að starfsfólk og sjálfboðaliðar leggja svo mikið á sig í þágu þessara samtaka sem okkur þykir öllum svo vænt um. Ég vona að innan fárra ára munum við loksins komast á þann stað að Samtökin 78 verði jafn stór – rekstrarlega séð – og áhrif okkar í samfélaginu gefa til kynna.

Síðan við hittumst síðast á félagsfundi þá hefur ótal margt gerst. Það ber auðvitað hæst að ný lög um kynrænt sjálfræði hafa verið samþykkt á Alþingi, risastórt skref fyrir trans fólk á Íslandi og lög sem hinsegin fólk og bandamenn okkar í öðrum löndum horfa til. Hér má klappa. Eftir að hafa horft á þættina Svona fólk í haust sé ég að við hefðum sennilega átt að fagna þessum stóra áfanga saman í sumar. Bjóða til veislu, halda ræður. En ég viðurkenni að við vorum hreinlega uppgefin, því það þurfti að ýta á eftir þessu máli og reyna að koma í veg fyrir breytingar á því fram á allra síðustu stundu. Þessu mikilvæga og tímabæra framfaraskrefi fylgdu líka tilfinningar vonbrigða, vegna þess að aldurstakmark frjálsrar kynskráningar var hækkað í meðferð Alþingis og vegna þess að intersex systkini okkar voru skilin eftir í þessum lögum. Því munum við gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að bæta úr og í nefndinni sem hefur málið til umfjöllunar á hinsegin samfélagið tvo kanónufulltrúa: Maríu Helgu Guðmundsdóttur og Kitty Anderson.

Ég er þess fullviss að við munum hafa sigur í því máli og að þau mannréttindabrot sem inngrip í líkama intersex barna eru, verði bönnuð. En til þess þurfum við öll að rísa upp og standa með þeim hluta samfélags okkar sem hefur verið þaggaður í allt of langan tíma. Alþingi þarf að finna fyrir pressunni úr samfélaginu. Þegar við klárum þessi lög þá lofa ég því að við munum halda almennilegt partí.

En þegar lögin um kynrænt sjálfræði voru samþykkt í júní var trans fólki skyndilega þeytt fram í miðpunkt opinberrar umræðu. Réttindin sem við höfðum barist fyrir urðu að pönslænum misgrófra brandara á internetinu og á kaffistofum, sem áttu það þó flestir sameiginlegt að vera lélegir. Ég veit að það var og er erfitt að þurfa endalaust að sitja undir spurningum og efasemdum um tilvistarrétt og sjálfsákvörðunarrétt sinn. Það er síðan óásættanlegt að við skulum þurfa að standa í stappi við Þjóðskrá í enn eitt sinn, eins og í máli Öldu Vigdísar Skarphéðinsdóttur, sem fær kynskráningu sinni ekki breytt þrátt fyrir ný lög.

Fyrir mér, þá voru viðbrögðin við lögum um kynrænt sjálfræði ágætis áminning um það hversu grunnt fordómar í íslensku samfélagi liggja. En munum samt að þau sem styðja okkur af öllu hjarta eru miklu miklu fleiri en við höldum og miklu fleiri en þau sem hafa hvað hæst á kommentakerfum. Og þeim mun fjölga eftir því sem við komum skilaboðum okkar á framfæri oftar og víðar.

Í sumar héldum við einnig upp á það að Stonewall óeirðirnar urðu 50 ára með stórum fjórþættum viðburði þar sem við reyndum að höfða til sem flestra. Eftir stórglæsilega 10 daga Hinsegin daga var næsta verkefni á dagskrá að taka á móti varaforseta Bandaríkjanna, sem fékk svo sannarlega að finna fyrir því – bæði af hálfu ráðamanna hér á landi og þegar regnbogafáninn blakti við hún um allt – að á Íslandi eru mannfjandsamleg viðhorf og stefna líkt og hann stendur fyrir ekki samþykkt.

Á persónulegu nótunum, þá eignaðist ég mitt annað barn í lok ágúst. Mig langar til þess að nýta tækifærið hér og þakka Unnsteini varaformanni fyrir að halda starfinu gangandi og frábæru í september á meðan ég var í orlofi frá formennskunni.

Í lok september sæmdum við svo Guðrúnu Ögmundsdóttur heiðursmerki Samtakanna ‘78 fyrir ómetanlegt framlag í þágu hinsegin fólks á Íslandi, en hún átti risastóran þátt í því að pör af sama kyni fengu full hjúskaparréttindi. Í haust bættust einnig nýir hinsegin fræðarar í hópinn okkar, ráðgjöfin hefur aldrei verið eins vinsæl, við höfum hjálpað til við móttöku hinsegin flóttafólks og sinnum alltaf hælisleitendum sem til okkar leita. Gallerí ‘78, undir forystu Yndu og Ásdísar, hefur haldið frábærar sýningar. Við héldum svo nýverið afar vel sóttan fræðsluviðburð fyrir foreldra og aðra aðstandendur hinsegin barna og það má einnig segja að hinsegin félagsmiðstöðin hafi sprungið út enn og aftur, en hún er nú flutt úr húsnæði Samtakanna ‘78 og hefur fengið inni í Spennistöðinni á þriðjudagskvöldum. Um daginn kom Páll Óskar í heimsókn til þeirra og þar sungu eitt hundrað krakkar í kór: Ég er eins og ég er. Fallegra verður það ekki.

Það er ótal margt í gangi innan Samtakanna ‘78 á degi hverjum. Hitann og þungann af því starfi ber starfsfólkið okkar. Daníel, framkvæmdastjóri, sem hefur unnið svo ótrúlega magnað starf síðastliðin ár. Sólveig Rós, fræðslustýran okkar, sem stendur sig eins og hetja, fer á hvern staðinn á fætur öðrum og nær að mæta fólki þar sem það er og ýta samfélagsvitundinni þangað sem hún á að vera. Heiðrún, skrifstofustýran okkar, sem er svo miklu meira en skrifstofustýra og sinnir þeim ótrúlega fjölbreyttu erindum sem koma á borð Samtakanna ásamt því að stýra að miklu leyti samfélagsmiðlum, bæklingaútgáfu, viðburðum og fleiru. Ráðgjafarnir okkar, Sigga Birna, Guðrún, Guðbjörg, Aldís, Ragnar, Todd og Helga, eru algjört kraftaverkafólk. 

Sjálfboðaliðar Samtakanna ‘78 eru magnaður hópur og of mörg til þess að telja upp þótt þau eigi það öll skilið. En ég ætla að fá að nefna sérstaklega stjórn Samtakanna, en hana skipa ásamt mér Rósanna, Marion, Bjarndís, Unnsteinn, Rúnar og Sjúlli. Okkur hefur tekist að vinna afar vel saman og við höfum getað nýtt kosti hvers og eins til þess að mynda góða heild með skýra sýn á Samtökin og framtíð þeirra. Þá er ótalin Edda, áheyrnarfulltrúi trúnaðarráðs, sem hefur verið ótrúlega öflug og eins og áttundi stjórnarmeðlimurinn. 

Við höfum á síðustu mánuðum haldið áfram með styrkingu innra starfsins okkar. Sjálfboðaliðastefnan hefur verið sett í gagnið og nú er hægt að skrá sig sem sjálfboðaliða á heimasíðunni okkar. Einnig höfum við skipað fagráð í tengslum við aðgerðaráætlun gegn ofbeldi, sem er einnig aðgengileg í lokaútgáfu á heimasíðunni. Við höfum sett inn á vefinn form þar sem hægt er að tilkynna ofbeldi, mismunun, áreiti, hatursorðræðu eða hatursglæp og við hvetjum öll til þess að nota það, jafnvel þótt þið viljið ekki fara lengra með málið. Það skiptir máli fyrir okkur til þess að við áttum okkur á stöðunni og getum nýtt upplýsingarnar til þess að ýta á stjórnvöld.

Fyrir skömmu vorum við Daníel og Marion á ráðstefnu ILGA Europe í Prag. Þar sóttum við fyrirlestra og vinnustofur af ýmsu tagi og lærðum heilan helling, en það sem mér fannst standa upp úr var það að uppgangur öfgaafla er merkjanlegur um alla Evrópu. Við höfum komið á samstarfi við systursamtök okkar á Norðurlöndunum og ég er þess fullviss að það samstarf mun reynast okkur vel.

Það er nánast full vinna að reyna að halda yfirsýn yfir starfsemi Samtakanna ‘78. Ég hef hana þess vegna ekki 100% og ég vona að mér fyrirgefist ef ég hef gleymt einhverju algjörlega krúsjal í okkar starfi. Það má gjarnan grípa fram í núna ef ég hef gert það.

Ég hef núna verið formaður þessara öflugu samtaka í átta mánuði. Þetta hefur verið ótrúlega viðburðaríkur tími fyrir mig persónulega, en einnig fyrir Samtökin ‘78, eins og fram hefur komið. Ég er svo stolt af Samtökunum ‘78. Og þegar ég segi það, þá er ég auðvitað að segja að ég er svo stolt af ykkur öllum sem gerið þessi félagasamtök jafn öflug og raun ber vitni. Með sjálfboðaliðavinnu ykkar, með stuðningi ykkar og áhuga á starfinu. Samtökin ‘78 eru ekkert án fólksins sem er í þeim.

Það er mér svo mikill heiður að vera formaðurinn ykkar og ég vona að þið séuð ánægð með mín störf hingað til. Ef ekki, þá vil ég gjarnan heyra af því. Það sama gildir um Samtökin í heild. Ef við erum að bregðast á einhverjum sviðum, þá viljum við vita það. Því þannig lærum við og höldum áfram.

Að lokum þá langar mig að segja: Baráttan sem við stöndum í skiptir máli.

Hinsegin krakkar eru ennþá miklu líklegri til þess að búa við verri geðheilsu en jafnaldrar þeirra og mæta skilningsleysi og fordómum þegar þau koma út. Eldri hommar og lesbíur eru að einangrast og þeirra þörfum er ekki mætt á viðunandi hátt í kerfinu. Á vinnumarkaði stöndum við ver að vígi. Í íþróttum erum við nær alveg ósýnileg og stemningin innan ákveðinna greina er alveg sérstaklega fjandsamleg. Miðflokkurinn er farinn að gæla við transfóbíska orðræðu. Enn er það svoleiðis að við getum ekki treyst því að vera mætt af skilningi og fordómaleysi innan hins opinbera. Innan menntakerfisins, heilbrigðiskerfisins, eða hjá lögreglunni. Nasistar voga sér að ganga um götur landsins og koma fram undir fullu nafni og mynd í fyrsta sinn síðan ég man eftir mér. Þetta er ekki búið og það verður það aldrei.

En það sem skiptir langmestu máli er það að við höldum áfram að virkja þann kraft sem í okkur býr þegar við stöndum saman, þvert á kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu, kyneinkenni og kynslóðir, og nýtum baráttugleðina og samstöðuna til þess að móta samfélagið okkar þannig að við höfum öll frelsi og tækifæri til þess að lifa lífinu eins og við sjálf kjósum.

Gleðilegan félagsfund.

2,351 Comments

Skrifaðu athugasemd