Samkynhneigðir og rétturinn til fjölskyldulífs

By 16. ágúst, 2004Uncategorized

Fordómar gagnvart samkynhneigðum hafa verið á undanhaldi hér á landi á undanförnum árum rétt eins og í nágrannalöndum okkar. Með vaxandi sýnileika samkynhneigðra ásamt aukinni fræðslu og umræðu hefur dregið úr fordómum. Til samræmis við þessa þróun hefur jafnframt dregið úr því lagalega misrétti sem samkynhneigðir hafa búið við. Þótt vel hafi miðað þá skortir enn á fullt jafnrétti á sviði fjölskylduréttar.

Samkynhneigðir hafa enn ekki fullan rétt til ættleiðinga, konum í staðfestri samvist er enn meinaður aðgangur að tæknifrjóvgun og enn skortir á að samkynhneigðir í óstaðfestri samvist njóti sömu réttinda og fólk í óvígðri sambúð.

 

Hjúskaparlög fyrir samkynhneigða í Evrópu

Það var ekki fyrr en um og eftir 1990 að lesbíur og hommar öðluðust rétt til að lögfesta hjúskap sinn. Níu Evrópulönd hafa nú sett löggjöf sem lögleiða slíkan rétt. Enn eru þó víðast lagalegar takmarkanir til barneigna. Evrópulöndin níu sem hafa lögleitt hjúskap lesbía og homma eru: Belgía, Danmörk, Finnland, Frakkland, Holland, Ísland, Noregur, Svíþjóð og Þýskaland. Þessir löggerningar veita hins vegar afar mismunandi réttindi. Í sumum löndum hafa lögin svipuð réttaráhrif og lög um hjúskap fólks af gagnstæðu kyni. Dæmi um slík lög er að finna á Norðurlöndum, Hollandi og Belgíu. Í öðrum löndum veita slík lög mjög takmörkuð réttindi miðað við hjónaband gagnkynhneigðra, en líkjast fremur því sem við þekkjum sem óvígða sambúð. Dæmi um slík lög er að finna í Frakklandi frá árinu 1999 og þýsk lög frá 2001 (Waaldijk, 2003). Auk laga sem sett hafa verið af þjóðríkjum eru til lög sem takmarkast við fylki eða borgir og eru réttaráhrif þeirra yfirleitt takmörkuð (Galán, 2003).

 

Hjúskaparlög og fjölskylduréttur á Norðurlöndum

Danmörk varð fyrst landa til að setja lög um staðfesta samvist árið 1989. Önnur Norðurlönd fylgdu í kjölfarið: Noregur árið 1993, Svíþjóð 1995, Ísland 1996 og Finnland árið 2001. Að auki hafa Ísland og Danmörk lögleitt stjúpættleiðingar samkynhneigðra en þær fela í sér að samkynhneigð pör í staðfestri samvist geta ættleitt barn maka síns, í Danmörku árið 1999 og á Íslandi árið 2000. Árið 2002 var Svíþjóð fyrst landa til að lögfesta rétt samkynhneigðra para til frumættleiðinga en þessi réttur felur í sér að samkynhneigð pör í staðfestri samvist í Svíþjóð fá rétt til þess að gangast undir hæfnispróf á sömu forsendum og gagnkynhneigð pör, óski þau eftir því að ættleiða börn. Lögin fela ekki í sér rétt lesbía til tæknifrjóvgunar, sem enn er bönnuð, en í undirbúningi er lagafrumvarp í Svíþjóð sem lagt mun verða fram síðar og felur í sér afnám þessa banns (Hegna, Kristiansen og Moseng, 1999; Stockholm Justitedepartementet, 2001).

 

Réttarbætur á Íslandi

Árið 1992 var þingsályktunartillaga um afnám misréttis gagnvart samkynhneigðu fólki borin fram á Alþingi. Tillagan var flutt af fulltrúum allra stjórnmálaflokka. Hún var samþykkt einróma og hljóðaði svo: ?Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að kanna stöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi. Nefndin skal skipuð fulltrúum dómsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og hagsmunasamtaka samkynhneigðs fólks. Skal nefndin kanna lagalega, menningarlega og félagslega stöðu þess og gera tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki hverfi hér á landi.

Á grundvelli þessarar samþykktar skipaði forsætisráðherra nefnd árið 1993 til þess að leysa þau verkefni sem þingsályktunartillagan kvað á um. Nefndin lauk störfum haustið 1994 með því að senda frá sér ítarlega skýrslu sem síðan myndaði grundvöll löggjafar sem fylgdi í kjölfarið (Forsætisráðuneytið, 1994). Lög (nr. 87/1996) um staðfesta samvist fólks af sama kyni voru síðan samþykkt á Alþingi 4. júní 1996. Staðfest samvist er jafngild hjónabandi gagnkynhneigðra, með þeim undantekningum að ættleiðingar voru ekki heimilar né tæknifrjóvganir. Þá er einungis borgaralegum vígslumanni, en ekki kirkjulegum, heimilt að staðfesta samvist fólks af sama kyni. Ísland var fjórða landið í heiminum til að samþykkja slík lög en gekk lengra í lagasetningu sinni en ríkin þrjú, Danmörk, Noregur og Svíþjóð sem áður höfðu lögleitt staðfesta samvist, með því að íslensku lögin fólu í sér rétt til sameiginlegrar forsjár barna aðila í staðfestri samvist.

Vorið 2000 samþykkti Alþingi breytingar á lögum um staðfesta samvist. Með þeim breytingum er rýmkaður réttur útlendinga sem eru búsettir á Íslandi til að staðfesta samvist sína og kveðið á um gagnkvæmt gildi þessa löggernings í þeim ríkjum sem búa við samsvarandi lög. Með þeim var einnig heimiluð ættleiðing stjúpbarna fólks í staðfestri samvist að því gefnu að samvistaraðilar hefðu áður farið með sameiginlega forsjá barnanna. Enn standa þau ákvæði laganna frá 1996 sem meina konum í staðfestri samvist rétt til tæknifrjóvgunar; einnig stendur enn það ákvæði sem meinar pari í sta&eth
;festri samvist að ættleiða barn sem er báðum óskylt (frumættleiðing). Þá leyfist einungis borgaralegum vígslumanni en ekki kirkjulegum að staðfesta samvist fólks af sama kyni. Loks skal nefnt að ekki ríkir jafnrétti fyrir lögum með samkynhneigðum og gagnkynhneigðum í óvígðri sambúð.

Nú eru væntanlegar frekari réttarbætur í málefnum samkynhneigðra. Hinn 11. mars 2003 var samþykkt einróma á Alþingi þingsályktunartillaga um skipun nefndar sem ætlað er að kanna réttarstöðu samkynhneigðs fólks og gera tillögur um úrbætur. Meginhlutverk nefndarinnar var að vinna að því að gera tillögur til úrbóta varðandi það misrétti sem enn stendur (Rannveig Traustadóttir og Þorvaldur Kristinsson, 2003; Þorvaldur Kristinsson, 2003). Nefndin lauk störfum sumarið 2004 með því að senda frá sér ítarlega skýrslu þar sem fjallað er ítarlega um réttarstöðu samkynhneigðra og lagt á ráðin um úrbætur.

 

Eru rök fyrir takmörkunum á fjölskyldurétti samkynhneigðra?

Fjölskyldur samkynhneigðra eru ekki nýtt fyrirbæri. Samkynhneigðir hafa alltaf átt börn og alið þau upp. Hins vegar er það nýtt að lesbíur og hommar gangist í auknum mæli opinberlega við kynhneigð sinni og eru sýnilegri sem samfélagshópur. 

Helstu fordómar gegn samkynhneigðum foreldrum eru þeir að samkynhneigðir séu óhæfir foreldrar, að lesbíur séu ekki eins móðurlegar og aðrar konur, að samkynhneigðir séu geðveikir, að samband lesbía og homma við maka af sama kyni komi í veg fyrir að þau gefi sér tíma til að sinna barnauppeldi, og að lífsstíll samkynhneigðra sé ósamrýmanlegur barnauppeldi og fjölskyldulífi. Auk þess hafa ýmsir óttast að börn skaðist af því að alast upp hjá samkynhneigðum; að kynímynd þeirra brenglist, að þau verði samkynhneigð, að persónuleikaþroski þeirra truflist, að þau verði fyrir aðkasti vegna kynhneigðar foreldranna, eigi erfiðara með að mynda félagstengsl við jafningja og að þau verði misnotuð kynferðislega (Falk, 1994; Patterson, 1992).

Fordómar af þessu tagi hafa iðulega haft áhrif á lagasetningar, ákvarðanir um forsjá og umgengnisrétt samkynhneigðra foreldra við börn sín, á samskipti samkynhneigðra foreldra við fagfólk og ýmsar stofnanir samfélagsins svo sem skóla, heilbrigðiskerfi og félagsþjónustu (Hunter, Shannon, Knox og Martin, 1998). Þetta er athyglisvert í ljósi þess að rannsóknaniðurstöður hafa til þessa ekki staðfest neina af þessum fordómum. Þvert á móti hafa rannsóknir sýnt að samkynhneigðir foreldrar eru mjög líkir gagnkynhneigðum foreldrum í viðhorfum til foreldrahlutverksins, tengslum við börnin, uppeldisaðferðum, ástríki við börn og á öðrum sviðum sem snerta barnauppeldi (Falk, 1994; Hunter og fleiri, 1998; Patterson, 1992). Rannsóknir sem beinst hafa að börnum samkynhneigðra hafa heldur ekki staðfest mun á þeim og börnum gagnkynhneigðra og ekkert gefur til kynna að börn samkynhneigðra séu öðruvísi en önnur börn (Falk, 1994; Hunter og fleiri, 1998; Patterson, 1992; Saffron, 1996). Fyrirliggjandi rannsóknaniðurstöður réttlæta því á engan hátt að foreldraréttur samkynhneigðra sé takmarkaður.

 

Að lokum

Allar rannsóknir sem beinst hafa að samkynhneigðum foreldrum og börnum þeirra eru samhljóða um að kynhneigð hefur engin áhrif á færni fólks sem uppalenda og enginn marktækur munur er á börnum samkynhneigðra og gagnkynhneigðra. Það er því ljóst að það á sér enga stoð í rannsóknaniðurstöðum að banna samkynhneigðum að ala upp börn og að allar takmarkanir á foreldrarétti og foreldraábyrgð samkynhneigðra eru byggðar á fordómum eða vanþekkingu, ekki á þeirri vísindalegu þekkingu sem aflað hefur verið með rannsóknum og fræðastarfi á undanförnum áratugum.

Heimildir

Forsætisráðuneytið (1994). Skýrsla nefndar um málefni samkynhneigðra. Reykjavík: Höfundur.
Falk, P.J. (1994). The gap between psychological assumptions and empirical research in lesbian-mother child custody cases. Í A.E. Gottfried og A.W. Gottfried (ritstj.), Redefining families: Implications for children´s development (bls. 131?156). New York: Plenum Press.
Galán, J.I.P. (2003). Same-sex couples in Spain: Historical, contextual and symbolic factors. Erindi flutt á ráðstefnunni ?Same-sex couples, same-sex partnerships and homosexual marriages: A focus on corss-country difference,? sem haldin var við Stockholm University 25.?26. september 2003.
Hegna, K., Kristiansen, H.W. og Moseng, B.U. (1999). Levekår og livskvalitet blant lesbiske kvinner og homofile menn. NOVA Rapport. Oslo: Norsk institutt for forskning om oppvekst, velferd og aldring.
Hunter, S., Shannon, C. Knox, J. og Martin, J.I. (1998). Lesbian, gay and bisexual youths and adults. Thousands Oaks: Sage.
Patterson, C.J. (1992). Children of lesbian and gay parents. Child Development, 63, 1025?1042.
Rannveig Traustadóttir og Þorvaldur Kristinsson (ritstj.)(2003). Samkynhneigðir og fjölskyldulíf. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Saffron, L. (1996). ?What about the children?? Sons and daughters of lesbian and gay parents talk about their lives. London: Cassell.
Stockholm Justitedepartementet (2001). Barn í homosexuella familier. SOU 2001. Stockholm: Höfundur.
Waaldijk, K. (2003). More or less together: Levels of legal consequences of marriage, cohabitation and registrered partnership in nine European countrires. Erindi flutt á ráðstefnunni ?Same-sex couples, same-sex partnerships and homosexual marriages: A focus on corss-country difference,? sem haldin var við Stockholm University 25.?26. september 2003. 
Þorvaldur Kristinsson (2003). Samkynhneigðir og löggjöf á Íslandi: Stutt ágrip. Í Rannveig Traustadóttir og Þorvaldur Kristinsson (ritstj.), Samkynhneigðir og fjölskyldulíf. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

6,237 Comments

Skrifaðu athugasemd