Skoðað í framhaldinu

By 5. apríl, 2001Uncategorized

Einn af undarlegri fylgifiskum fjölmiðlasamfélagsins er að hlutirnir gerast ekki lengur þegar þeir gerast heldur gerist eiginlega ekki neitt nema það hafi komið í fjölmiðlum. Við fréttum allt gegnum þá og gerist eitthvað hjá okkur kemur það líka í fjölmiðlum og gerist það ekki hefur eiginlega ekkert gerst. Nærtækt og sígilt dæmi er að samkynhneigðir voru ekki til fyrr en þeir birtust í fjölmiðlum.

Þetta hik á veruleikanum hefur auðvitað margvíslegar aukaverkanir og glöggt fjölmiðlafólk veit að ekki má lengur gera ráð fyrir því að eitt gerist á eftir öðru en ekki allt samtímis. Þess vegna segir það ekki eins og annað fólk ?og hann fór? eða ?en hún kom? heldur ?og í kjölfarið fór hann? og ?en í framhaldinu fór hún?. Í fyrra kom til dæmis fræg, dönsk skáldkona til landsins sem hafði líka komið hingað árið áður og lent í dónalegum tollvörðum. Það var vandlega rakið í öllum fjölmiðlum að í framhaldinu hefði hún kvartað við yfirvöld sem hefðu í framhaldinu skoðað málið og í framhaldinu hefði henni verið boðið aftur til landsins. Framhaldið er sem sagt eins konar óskilgreint áfrýjunarstig á borð við nefndina, stjórnina og stofnunina; í framhaldinu eru mál skoðuð og teknar ákvarðanir.

Í framhaldi Hinsegin daga

Eftir að samkynhneigðir urðu til höfum við fengið okkar skerf af nefndum, stjórnum og stofnunum en það er spurning hvort okkur vanti ekki enn framhaldið. Í fyrra héldum við mikla Gay Pride hátíð, sem tókst glæsilega í fjölmiðlum, en í stað þess að skoða hana í framhaldinu er tilheyrandi nefnd þegar langt komin að skipuleggja þá næstu. Í framhaldinu er eðlilegt að skoða hvað okkur gangi til með þessu brölti og hverju það hafi skilað.

Í fjölmiðlum stóðu fimm félagasamtök að Hinsegin dögum en í gráum veruleikanum sátu örfáir menn á fundum hvert einasta mánudagskvöld í allan fyrravetur við að búa hátíðina til í huganum og síðustu vikurnar stritaði álíka fámennur hópur við að búa til alveg nýtt fyrirbæri – Gay Parade. Sjálf skipulagningin, að tryggja húsnæði og torg, flytja inn skemmtikrafta og ræðumenn, fá nauðsynleg leyfi og annað þess háttar tók í rauninni minnstan tíma. Mun meiri fyrirhöfn var að skapa hátíðina í fjölmiðlum; búa til okkar eigið kynningarefni og safna auglýsingum í það og koma fjölmiðlafólki í skilning um hvað væri að gerast. Mesta verkið var þó að teygja sig inn í alla anga gay-samfélagsins, fá hugmyndir frá öllum, heyra skoðanir allra, ræða allar þær hugmyndir, finna kosti og galla og velja svo og hafna þannig að allir gætu vel við unað.

Þjónustustig í gay kaupstað

Í okkar eigin fjölmiðlum speglaðist tilgangurinn með Hinsegin dögum í kjörorðunum Gleði – Stolt ? Sýnileiki en að baki þeim liggur ólíkt flóknari veruleiki. Í fyrsta lagi er aðalmarkmiðið auðvitað það sem mestur tími fór í: að ná inn í alla króka og kima gay-samfélagsins og fá allt þetta gerólíka fólk til að átta sig á að það eigi eitthvað sameiginlegt. Fólk sem á eitthvað sameiginlegt á líka sameiginlega hagsmuni og þegar það vaknar til vitundar um það gerir það líka eðlilegar kröfur. Það hefur þegar gerst á réttarfarssviðinu og þar hefur mikið áunnist en hins vegar vantar þó nokkuð á að gay félags- samkvæmis- og menningarlíf í Reykjavík sé eins gott og fjölbreytt og það gæti vel verið. Þjónustustigið, eins og það er kallað, verður ekki bætt með einhliða kröfugerð en það er augljóst að markaðurinn verður að vita af kúnnunum til að geta þjónað þeim. Fólk í felum fær enga þjónustu.

Eftir allra varlegustu útreikningum og íhaldssömustu túlkunum allra kannana og vísbendinga er ljóst að í Reykjavík eru fleiri hommar og lesbíur en íbúar í meðalstórum kaupstað úti á landi, minnst fimm til tíu þúsund manns. Það er auðvitað fólk af öllu tagi en markaðskannanir austan hafs og vestan hafa sýnt ýmsar staðreyndir um neysluvenjur samkynhneigðra sem koma svo sem ekki á óvart en ættu að vekja athygli þjónustuaðila, ekki síst í afþreyingar- og ferðaþjónustu. Þar má nefna að samkynhneigðir karlmenn hafa í heildina meiri fjárráð en gagnkynhneigðir, eyða meira fé í skemmtanir og ferðalög, sérstaklega á aldrinum 25-35, borða oftar úti, kaupa meira af fötum og svo framvegis. En þeir kaupa ekki pakkaferð í tveggja manna herbergi á fjölskylduvænu hóteli á sólarströnd. Eitt markmið Hinsegin daga er sem sagt hreint og beint að gera þennan kúnnahóp sýnilegan, koma honum í fjölmiðlavitundina, í von um að markaðsöflin taki við sér og bjóði viðeigandi þjónustu.

Þjónustustig í stórborg

Þangað til fyrir tíu árum eða svo fluttust samkynhneigðir í stórum stíl til útlanda vegna þjónustuleysis hér heima. Gay menning er nú einu sinni borgarmenning og góð gay menning stórborgarmenning. Gay Pride gangan niður Laugaveg í fyrrasumar setti stórborgarbrag á Reykjavík og það líkaði öllum vel. Félagasamtök samkynhneigðra lögðu þar sitt til stórborgarmenningar eins og félagasamtök gera. Aðrir aðilar, sem standa fyrir menningarstarfi, eru annaðhvort hið opinbera, ríki og borg, eða einkaaðilar, markaðurinn.

Ríki og borg styrkja Sinfóníuhljómsveitina, leikhúsin og almennt sinn part af því sem stórborg þarf og gerir það líka í gay menningunni með því að styrkja Samtökin ?78 í sínu starfi svo þau geti boðið gay félagsmiðstöð, gay ráðgjöf, gay bókasafn, gay uppákomur, gay listsýningar, gay trúarhóp, gay foreldrahóp og annað þess háttar sem gagnkynhneigðir fá yfirleitt ókeypis frá samfélaginu. Markaðurinn sér svo um sinn hlut af því sem greinir smáborg frá stórborg, fjölbreytta matsölustaði og verslanir, skemmtistaði og alls konar sérhæfða þjónustu. Hann gerir það líka í gay menningunni með því að bjóða gay hótel og gay diskó. Eðlilega á hann líka að bjóða upp á gay bari og hefur gert það í meira en hálfa öld í þeim skilningi að hommar, sem höfðu áhuga á að hitta aðra homma, vissu alltaf á hvaða bar væri helst von til þess. Það má beinlínis rekja slóðina frá Hótel Borg yfir Laugaveg 11Hábæ upp í Klúbbinn og Sesar niður á Casablanca inn á Upp og niður eða Abradacabra eða Moulin Rouge á 22.

Mannsbar í framhaldinu?

Í september í fyrra var opnaður bar og kynntur sem fyrsti gay bar borgarinnar. Í fjölmiðlum var það aldamótaátak í gay lífinu og eðlilegt framhald af þróun gay lífsins í borginni. Gay samfélagið tók líka rækilega við sér og auglýsti barinn um allan heim. Fram eftir hausti lifði barinn góðu lífi í fjölmiðlum en í veruleikanum var staðnum lokað fyrirvaralaust í lok febrúar og sett orðsending á dyrnar um að þar yrði opnaður nýr staður með „algjörlega breyttum áherslum“. Verði opnað þar aftur er sá bar þannig sérstaklega merktur sem eini staðurinn í bænum sem ekki vill fá gay viðskiptavini. Um þetta hefur ekkert komið í fjölmiðlum og hefur þannig eiginlega ekki gerst, nema ef telja skal ábendingu í Fókus um þann aumingjaskap gay liðsins að geta ekki haldið staðnum opnum. Þarna er sjálfsagt líka ólíkt flóknari raunveruleiki að baki því gay hótelin ganga vel og gay diskóið Spot-Light beinlínis blómstrar svo nóg er af kúnnunum. En eftir stendur að við sitjum uppi með gaybarslausa borg.

Ferðamenn í framhaldinu

Auðvitað finnur gay fólk annan stað til að fara á, en í fjölmiðlum er Reykjavík orðin mjög gayvæn borg og þeir sem standa augliti til auglitis við ferðamenn sem koma til að sannreyna ímyndin
a verða kindarlegir þegar spurt er: Hvert á að fara? Þá stingur fjölmiðlaímyndin svo í stúf við veruleikann að ferðamönnum finnst þeir beinlínis vera sviknir. Í fjölmiðlum eru Hinsegin dagar hrein skemmtun en í veruleikanum var síðasta Gay Pride tveggja milljón króna kynningarátak fyrir gay lífið í Reykjavík.Til að halda því uppi þurfum við beinlínis á ferðamönnum að halda og það er heldur enginn skortur á þeim. Kynningarátakið tókst mjög vel og við sitjum uppi með framhaldið, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Höfundur er ritari í MSC Ísland og annar fulltrúa þess í samstarfsnefnd um Hinsegin daga í Reykjavík.

5,649 Comments

Skrifaðu athugasemd