Tímamót á Norðurlöndum – Sænska þjóðþingið samþykkir ættleiðingalög

By 6. júní, 2002Fréttir

Frettir Miðvikudaginn 5. júní samþykkti þjóðþing Svía, Riksdagen, frumvarp það sem veitir samkynhneigðum pörum í staðfestri samvist rétt til ættleiðinga. Alls greiddu 308 þingmenn atkvæði í þessu máli, 183 voru fylgjandi, 115 á móti og 10 sátu hjá. Á sænska þinginu sitja 349 fulltrúar. Allir flokkar á sænska þinginu nema einn klofnuðu í málinu, en frumvarpið var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta.

Þetta eru sögulegt tíðindi í sögu samkynhneigðra á Norðurlöndum. Lögin sem nú hafa verið samþykkt fela í sér að samkynhneigð pör í staðfestri samvist í Svíþjóð fá rétt til þess að gangast undir hæfnispróf á sömu forsendum og gagnkynhneigð pör, óski þau eftir því að ættleiða börn, þ.e. að afnumið er bann sem áður stóð í sænsku lögunum um staðfesta samvist. Lögin fela einnig í sér rétt til svonefndrar stjúpættleiðingar, þ.e. að samvistarmaki getur ættleitt barn maka síns, nokkuð sem þegar er fyrir hendi í íslenskri löggjöf allt frá árinu 2000.

Hér er um að ræða mikilvæga réttarbót fyrir börn samkynhneigðra, svo og stórt skref í baráttu homma og lesbía fyrir jafnrétti á við aðra þjóðfélagsþegna. Lögin fela ekki í sér rétt lesbía til tæknifrjóvgunar, sem enn er bönnuð, en í undirbúningi er lagafrumvarp í Svíþjóð sem lagt mun verða fram síðar og felur í sér afnám þessa banns í lögum. Því eru lesbíur enn fórnarlömb lögbundins misréttis á þessu sviði.

Hörð átök um frumvarpið

Miklar umræður hafa farið fram í Svíþjóð um þetta mál á undanförnum mánuðum og andstæðar skoðanir verið uppi. Raddir þeirra sem voru á móti frumvarpinu voru háværar og rök þeirra fyrir andstöðu sinni allt frá því að samkynhneigðir væru óhæfir foreldrar vegna kynhneigðar sinnar til þess að hætta gæti verið á því að með þessum lögum myndu lönd, sem gæfu börn til ættleiðinga, útiloka allar ættleiðingar til Svíþjóðar.

Í vönduðu nefndaráliti sem unnið var fyrir gerð frumvarpsins á vegum sænska þingsins í 1100 blaðsíðna riti, svo og í fjölmiðlaumræðum, kom skýrt fram að allar rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessu sviði komast að sömu niðurstöðu: Enginn marktækur munur er á börnum samkynhneigðra og gagnkynhneigðra, sem rekja mætti til mismunandi kynhneigðar foreldra. Þar að auki er sá ótti manna ástæðulaus að lönd sem gefa börn til ættleiðingar muni setja Svíþjóð á svartan lista vegna þessarar lagasetningar. Í könnun sem sænska utanríkisráðuneytið gerði í 25 löndum, þaðan sem flestar ættleiðingar í Svíþjóð eru gerðar, kom fram að þó svo að 17 þessara landa myndu ekki samþykkja ættleiðingu til samkynhneigðra, hefði það engin áhrif á afstöðu þessara sömu landa til frekari ættleiðinga barna til gagnkynhneigðra hjóna.

Sagan endurtekur sig

Í þessu samhengi má benda á að þegar Svíþjóð rýmkaði rétt til fóstureyðinga á 8. áratug síðustu aldar kom upp sami ótti meðal þeirra samtaka sem sjá um ættleiðingar, þ.e. að tiltekin lönd myndu útiloka ættleiðngar til Svíþjóðar, en einhver þessara landa höfðu sett fram mjög eindregnar skoðanir þar að lútandi. Voru þessi rök þá notuð til að styðja andstöðu við lagafrumvarp sem fól í sér frjálsar fóstureyðingar. Það kom í ljós að þegar upp var staðið og lög um frjálsar fóstureyðingar voru staðreynd, að engin marktæk breyting varð á ættleiðingum frá þessum löndum þegar til lengri tíma er litið. Óttinn var þá sem nú ? ástæðulaus.

Samtökin ?78 fagna þessu mikilvæga skrefi Svía til eflingar mannréttindum samkynhneigðra og barna þeirra. Hér er brotið blað í mannréttindum lesbía og homma og barna þeirra á Norðurlöndum og lagasetning þessi vekur von um að íslenskt samfélag fylki sér um full fjölskylduréttindi þeim til handa. Jafnframt skora Samtökin ´78 á íslensk stjórnvöld að fylgja þessu fordæmi og gera viðeigandi ráðstafanir í þá veru að íslensk löggjöf heimili ættleiðingar samkynhneigðra para.

Heimildir: www.rfsl.se / www.dn.se

49 Comments

Skrifaðu athugasemd