Frakkland – Bertrand Delanoë boðar nýja tíma í París

By 2. júní, 2001Fréttir

Frettir Laugardaginn 23. júní munu lesbíur og hommar í París, vinir þeirra og vandamenn, flykkjast út á stræti og torg til sinna árlegu hátíðahalda. Í þetta sinn á eilítið öðrum nótum en áður. Í rúma tvo mánuði hefur Bertrand Delanoë, yfirlýstur hommi, setið á stóli borgarstjóra í París, og kjöri hans fylgja óneitanlega miklar væntingar. Mun hann standa við gefin loforð og hver eru þau?

Í fyrsta sinn í 130 ár hefur sósíalisti verið kjörinn borgarstjóri í París og pólitískan meirihluta sinn myndar hann í samstarfi við Græna flokkinn. Saman hlutu flokkar sósíalista og græningja þó ekki nema 49.7% atkvæða í borgarstjórnarkosningunum í mars, en andstæðingarnir á hægri armi stjórnmálanna, Gaullistar, hlutu 50.3% atkvæða. En þar sem París er skipt upp í nokkur kjördæmi með kjörmannakerfi líkt og við forsetakosningar í Bandaríkjunum, náðu flokkarnir tveir á vinstri vængnum meirihluta kjörmanna og uppskáru mótmæli borgarstjóraefnis Gaullista, Philippe Séguin. Ekki sá þó Séguin ástæðu til að kvarta undan óréttlátu kjörmannakerfi fyrr en úrslit kosninganna lágu fyrir sunnudagskvöldið 18. mars sl.

Gagnsæi stjórnmálanna ? gagnsæi valdsins.

Bertrand Delanoë gerði opinskátt um kynhneigð sína fyrir nokkrum árum, og aldrei hefur neinn vogað sér að halla á hann orðinu fyrir það, enda þykir hann vinsæll og afburða snjall stjórnmálamaður. Sú ákvörðun hans að lýsa yfir samkynhneigð sinni er hluti af stærri lífssýn. Með hreinskilninni þaggaði hann fyrr á ferli sínum niður kjaftasögur meðal andstæðinga, hvar í flokki sem þeir stóðu, og leit á þessa persónulegu yfirlýsingu sem hluta af helstu hugsjón sinni í stjórnmálum: Gagnsæi stjórnmálanna ? gagnsæi valdsins.

Bertrand Delanoë hefur um árum saman tekið þátt í borgarpólitík og talið það skipta öllu í starfi sínu að veita hinum almenna borgara innsýn í stjórnkerfið, gera honum kleift að nálgast það, skilja það og þekkja ? og eignast þar ítök. Sú stefna höfðar núna óneitanlega sterkt til almennings í stóru ríki þar sem stjórnmálamenn hafa löngum sótt styrk sinn í það að halda sig fjarri almenningi, ríki þar sem mútuþægni og spilling í stjórnkerfi verður æ tíðari og grófari eins og dæmin sanna. Stefna Bertrands Delanoë er þó ekkert einsdæmi. Um allt Frakkland njóta þeir stjórnmálamenn vaxandi fylgis í pólitík borga og sveitarfélaga sem boða svipaða stefnu og leitast við að framfylgja henni. Kjósendur hafa líka á þessu ári markvisst hafnað þeim frambjóðendum sem reynt hafa að sækja fram í borgar- og sveitastjórnarkosningum án þess að hafa starfað ötullega að málefnum sinna borga og bæja.

Foringi Gaullista fyrri til í kosningabaráttunni

Stjórnmálamönnum í Frakklandi er núorðið mætavel ljóst að umtalsvert afl er að sækja í stuðning og atkvæði hins samkynhneigða hluta þjóðarinnar; atkvæði hans skipta hreinlega sköpum. Þó að hvorki Sósíalistar né Gaullistar hefðu dug í sér til að lýsa yfir opinberum stuðningi við mannréttindamál lesbía og homma í stefnuskrám sínum fyrir kosningarnar í mars, þá sá foringi Gaullista, Philippe Séguin, sér leik á borði í kosningabaráttunni og lofaði stuðningi við málefni samkynhneigðra í viðtali við Illico eitt helsta tímarit samkynhneigðra í Frakklandi sem kemur út hálfsmánaðarlega. Viðtalið vakti gríðarlega athygli meðal þjóðarinnar, aldrei fyrr hafði forystumaður á hægri væng franskra stjórnmála talað svo opinskátt og eindregið fyrir réttindum samkynhneigðra ? jafnvel eindregnar en hinn vinstri sinnaði andstæðingur hans, homminn Bertrand Delanoë. En homminn lét auðvitað ekki slá sig út af laginu.

Í bréfi sem Delanoë sendi forystu samtaka samkynhneigðra í París í febrúar sl. lýsti hann hugmyndum sínum um það hvernig styðja bæri samfélag samkynhneigða þar í borg. Þar lagði hann áherslu á að lesbíum og hommum bæri sami réttur og sami aðgangur að opinberum styrkjum og fjárveitingum og öðrum þjóðfélagshópum, ekki aðeins til alnæmisforvarna eins og raunin hefur verið síðustu árin, heldur einnig til þess að efla félagsstarrf, menningarviðburði og íþróttalíf á þeirra vegum. Einnig lofaði hann því að auðvelda samkynhneigðum aðgang að almennri þjónustu sem öðrum stendur til boða, en í Frakklandi eins og víðar veigra samkynhneigðir sér iðulega við að leita réttar síns og opinberrar aðstoðar líkt og gerist meðal etnískra minnihlutahópa. Meðal annars lofaði Delanoë að beita sér fyrir því að reistar yrðu tvær nýjar stuðningsmiðstöðvar í París, önnur fyrir samkynhneigða unglinga sem foreldrar hafa hrakið að heiman og hin fyrir karlmenn sem hafa viðurværi sitt af samkynhneigðu vændi án þess að kunna þar útleið.

Velkominn í heiminn, Bertrand!

Enginn veit þó hversu lengi Parísabúar verða að bíða þess að sjá kosningaloforð Bertrands Delanoë rætast. Og munu þau yfirleitt verða að veruleika? Það eykur heldur á bjartsýnina að stefnumál hans njóta eindregins stuðnings í Græna flokknum sem hefur lengi haft framsæknari stefnu og markvissari í málefnum samkynhneigðra en sjálfur Sósíalistaflokkurinn sem Delanoë tilheyrir. Þar á bæ lúrir vissulega gömul og gróin hómófóbía ef grannt er að gáð. En í því sambandi vilja sumir franskir fréttaskýrendur samt leggja áherslu á það að í fyrsta sinn í sögunni situr núna maður við æðstu völd í París sem hefur kynnst kúgun hommans af eigin raun og þekkir innviði hins samkynhneigða samfélags út í æsar. Þótt honum sé ekki ýkja tíðrætt um reynslu sína og innsæi í þeim efnum þá er ennþá hvergi í fari hans að finna tepruskap eða tilhneigingu til að leyna eða þagga niður ýmis vandamál sem ætíð fylgja samfélagi minnihlutahópa í stórri borg. Og til marks um væntingar Parísarbúa má nefna að í apríl kom þar drengur í heiminn sem á tvær lesbíur að mæðrum og tvo homma að feðrum. Hann var umsvifalaust skírður Bertrand í höfuðið á nýja borgarstjóranum ? lifandi von um nýja tíma í Frakklandi þar sem öllum mönnum er ber sami réttur og sama mannvirðing ? í orði og á borði.

Illico / Gay Times / Internet

49 Comments

Skrifaðu athugasemd