Fyrir 48 árum, aðfaranótt 28. júní 1969, gerði lögreglan í New York rassíu á einn af skemmtistöðum hinsegin fólks þar í borg, Stonewall-krána.
Þessar rassíur voru reglulegir viðburðir og fylgdi þeim fjöldinn allur af niðurlægjandi og ofbeldisfullum aðgerðum. Viðstaddir voru krafðir um skilríki, konur voru handteknar ef þær klæddust færri en þremur „kvenlegum flíkum“ og fólk sem þótti kvenlega klætt var sent á salernið með lögreglukonu, neytt til að sýna kynfæri sín og handtekið ef kynfærin þóttu ekki passa við klæðaburðinn.
En rassían 28. júní tók óvænta stefnu þegar hópur þeirra sem smala átti á klósettið neitaði að hlýða fyrirmælum. Ekki var um skipulega aðgerð að ræða; fólk var einfaldlega búið að fá nóg af ofbeldi og yfirgangi lögreglunnar. Borgaraleg óhlýðni snerist brátt upp í bein átök við lögregluna, með trans konur, dragdrottningar og aðra úr hópi þeirra sem sætt höfðu versta ofbeldinu og útskúfuninni í fararbroddi. Stonewall-uppþotin mörkuðu þáttaskil í baráttu hinsegin fólks í Bandaríkjunum fyrir viðurkenningu og réttindum og fyrsta kröfugangan með stoltið að einkunnarorði, „gay pride“, var gengin 28. júní ári síðar til að minnast uppþotanna.
Margt fleira markvert tengist þessari dagsetningu. Á Íslandi minnumst við nú einnig þess áfanga sem náðist þann 27. júní 2006 þegar íslenskum lögum var breytt svo fjölskylduréttur yrði jafn fyrir öll óháð kynhneigð. Þar með öðluðust samkynja pör sama rétt og gagnkynja pör til að skrá óvígða sambúð og konur í samkynja samböndum sama rétt og aðrar konur til tæknifrjóvgunar. Eitt af mörgum formum ofbeldis sem hinsegin fólk hefur sætt í gegnum tíðina er að vera meinað að stofna fjölskyldur og ákveða hverjir skuli teljast til þeirra nánustu. Það var því dýrmætur áfangi þegar rétturinn til að skrá sig í sambúð og eignast börn var lögfestur óháð kynhneigð. Það var svo árið 2010 sem ein hjúskaparlög gengu í gegn.
En þótt margt hafi breyst til hins betra síðan 1969 er lögregluofbeldi eins og það sem Stonewall-uppþotin beindust gegn enn allt of algengt. Sérlega ömurlegar fregnir berast okkur frá baráttusystkinum okkar í Tyrklandi. Nú um síðustu helgi fóru kröfugöngur hinsegin fólks fram víða um heim í minningu Stonewall, meðal annars í Istanbúl. Þar ákváðu yfirvöld að banna gönguna þriðja árið í röð, allt undir því yfirskini að „vernda“ þurfi þátttakendur fyrir ágangi öfgaþjóðernissinna. Hinsegin baráttufólk í Tyrklandi lét ekki telja úr sér kjark og gekk engu að síður. Þá varð ljóst að hættan stafaði fyrst og fremst af lögreglunni sjálfri sem skaut á þátttakendur í göngunni með gúmmíkúlum, sigaði hundum á þá og beitti táragasi. Samtökin ’78 fordæma þessar aðgerðir og skora á tyrknesk yfirvöld að vernda hinsegin fólk og félagafrelsi í landinu með raunverulegum hætti: með því að tryggja öryggi hinsegin fólks á opinberum vettvangi, vinna að réttarbótum fyrir hinsegin fólk og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins.
I don’t think the title of your article matches the content lol. Just kidding, mainly because I had some doubts after reading the article.