Umsögn um mannanöfn og heimsókn til allsherjarnefndar Alþingis

Formenn Samtakanna ’78, Trans Ísland og Intersex Ísland, skunduðu í morgun á fund allsherjar- og menntamálanefndar en nefndin bauð í heimsókn eftir að þessi samtök ásamt fleirum sendu inn umsögn um frumvarp um breytingar á lögum um mannanöfn. Formenn ræddu málið vítt og breitt við nefndarfólk en samtökin hafa lýst yfir stuðningi sínum við frumvarpið og þá sérstaklega hugmyndir um að afnema ákvæði um sérstök karlmanns og kvenmannsnöfn. Nefndarfólk spurði ýmissa spurning og almennt var andinn góður í fundinum.

Formennirnir voru sammála um að í þessu máli kristölluðust átök gamla og nýja tímans. Lögin eins og þau líti út í dag endurspegli valdakerfi sem byggir á úreltri hugsun um að kynin séu einungis tvö og að allir skuli gjöra svo vel að troða sér á sinn bás. Eins sýni ýmis ákvæði laganna, t.d. um vernd ‘gamalgróinna’ ættarnafna, vilja til stéttskiptingar fólks samkvæmt gamaldags hugmyndum um stigveldi og lénsskipulag. Niður með kynjakerfið, lifi byltingin!

Umsögn samtakanna sem send var inn í síðustu viku var svohljóðandi: 

Efni: 144. löggjafarþing 2014-2015. Þingskjal 523 – 389. mál. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannanöfn nr. 45/1996, með síðari breytingum (mannanafnanefnd, ættarnöfn).

Samtökin ‘78, Trans-Ísland, Q-félag hinsegin stúdenta, Intersex Ísland, HIN – Hinsegin Norðurland og Félag ungra jafnréttissinna eru samtök sem láta réttindi hinsegin fólks á Íslandi sig varða og hafa mörg þeirra í áraraðir barist fyrir bættum hag hinsegin fólks hérlendis sem erlendis. Málefni trans fólks og intersex fólks eru ofarlega á forgangslista samtakanna enda mikilvægir málaflokkar og langt í land með að þessum hópum séu tryggð fullnægjandi réttindi og jöfn staða hérlendis.

Með það í huga viljum við taka undir og fagna tillögum að breytingum á lögum um mannanöfn er snúa að því að afnema ákvæði um kvenmanns- og karlmannsnöfn. Við teljum það ákveðna tímaskekkju að nöfn séu kynbundin út frá margvíslegum ástæðum.

Fyrst ber að nefna að stór hluti trans fólks samsvarar sig ekki við það kyn sem þeim var úthlutað við fæðingu og undirgengst þess vegna kynleiðréttingu til að fá leiðréttingu á sínu kyni og breyta því nafni sínu í kjölfarið. Þessi hópur getur ekki breytt nafni sínu til að samsvara sinni kynvitund þegar þeim hentar, eins og núverandi fyrirkomulag er á lögum um réttarstöðu trans fólks og lögum um mannanöfn. Viðkomandi einstaklingar þurfa að hafa verið í formlegu ferli til kynleiðréttingar í a.m.k. 18 mánuði áður en þeir geta óskað eftir lagalegri nafnabreytingu. Þessi biðtími getur haft í för með sér mjög neikvæðar afleiðingar fyrir trans fólk. Þessar neikvæði afleiðingar birtast t.d. þegar að trans fólk þarf að sýna skilríki (s.s vegabréf) þar sem að nafn passar ekki við kynvitund viðkomandi og er ekki það nafn sem viðkomandi notar í daglegu lífi. Það yrði því mikil framför á réttarstöðu trans fólks hérlendis að það gæti breytt um nafn við byrjun ferlis eða þegar því hentar.

Sömuleiðis gera núgildandi lög um réttarstöðu trans fólks og núgildandi lög um mannanöfn eingöngu ráð fyrir því að einstaklingar upplifi sig sem karla eða konur og útiloka þau því sumt trans fólk og intersex fólk. Sá hópur trans fólks sem upplifir sig hvorki sem karl né konu hefur t.a.m. engan aðgang að nafnabreytingum. Kynvitund þessa hóps fellur ekki að hefðbundnum kynjaflokkum. Vegna þessa væri til bóta að fólk fengi í auknu mæli að setja saman nöfn sem hæfir þeirra kynvitund. Núgildandi lög um mannanöfn útiloka einnig intersex fólk, en það fellur ekki að hefðbundnum flokkunum þegar kemur að líffræðilegu kyni og getur kynvitund þeirra einnig verið margvísleg. Það að nöfn séu eingöngu karlmanns- eða kvenmannsnöfn útilokar því þann hóp intersex fólks sem upplifir sig hvorki sem karl né konu. Intersex einstaklingar sem búa við það að hafa verið úthlutað röngu kyni á barnsaldri hafa heldur enga möguleika innan núverandi lagaramma til þess að breyta um nafn.

Við viljum því lýsa yfir sérstökum stuðningi við breytingar á ákvæðum er kveða á um kvenmanns- og karlmannsnöfn og styðjum heilshugar að það ákvæði sé algjörlega afnumið. Það myndi vera stórt skref í réttindabaráttu trans fólks og intersex fólks hérlendis og myndi bæta stöðu hópa sem hafa hingað til fengið litla og/eða enga lagalega viðurkenningu hérlendis.

Virðingarfyllst,
Samtökin ‘78, félag hinsegin fólks á Íslandi
Trans-Ísland, félag trans fólks á Íslandi
Q-félag hinsegin stúdenta á Íslandi
Intersex Ísland, félag intersex fólks á Íslandi
HIN – Hinsegin Norðurland
Félag ungra jafnréttissinna á Íslandi

2 Comments

Skrifaðu athugasemd