Uppreisnin í Christopher Street

By 15. ágúst, 1999Uncategorized

Föstudagurinn 27. júní 1969 virtist ætla að verða eins og aðrir föstudagar hásumarsins í New York. Það var heitt og rakt og hommarnir flykktust þúsundum saman úr borginni til þess að sleikja sólina yfir helgina úti í Cherry Grove og The Hamptons. Það er að segja hinir efnuðu og makráðu. Þeir snauðari sátu heima og bjuggu sig undir ævintýri næturinnar.

Fyrir þeim var þetta enginn venjulegur föstudagur. Það var verið að jarða sjálfa Judy Garland þennan dag, eftirlæti þeirra um áratugi, allt frá því hún heillaði þá í hlutverki Dorothy í Galdrakarlinum í Oz árið 1939. Leiðir dýrkunar og samsömunar geta stundum verið flóknar, en svo var ekki hér. Þegar Dorothy litla söng um landið handan regnbogans, land vonarinnar þar sem draumarnir rætast, sló hún strengi í hjörtum þúsundanna sem síðan hafa ómað.

Neðarlega í Greenwich Village á Manhattan, í Christopher Street númer 51–53, lá vinsæll bar, Stonewall Inn. Vinsældir sínar átti staðurinn ekki síst að þakka því að þar gátu karlmenn dansað saman óáreittir. Þetta kvöld minntust gestirnir Judy með því að spila söngvana hennar og allt var með friði þar til upp úr klukkan eitt um nóttina. Skyndilega birtist lögreglan á svæðinu eins og svo oft áður, komin til að fremja reglubundna rassíu.

Einir fimmtán lögregluverðir birtust vopnaðir og handtóku sjö manns, eina konu og nokkra karla. Sumir munu hafa verið gestir á staðnum, aðrir starfsmenn og með þennan feng sinn héldu lögreglumennirnir út í bíl. Mikil læti upphófust þá utan dyra og þegar konan, sem handtekin hafði verið, rauk upp og sparkaði í klofið á einum verði laganna var fjandinn laus. Lögreglan leitaði skjóls inni á kránni, en fangarnir voru frelsaðir. Fólk þusti að úr nærliggjandi krám og brátt birtist óeirðalögreglan í Kristófersstræti en réð ekki við neitt. Hópurinn hafði uppgötvað samtakamáttinn.

Rassíur voru engin nýlunda í Greenwich Village. Lengi hafði lögregla borgarinnar iðkað þann sið að mæta á bari samkynhneigðra, handtaka fimm til tíu manns og sekta þá fyrir ósíðlegt athæfi. Það þótti ekkert tiltökumál því að á þeim tíma var samkynhneigð glæpur í öllum fylkjum Bandaríkjanna. Oft voru rassíur gerðar undir því yfirskyni að staðarhaldarar fullnægðu ekki hreinlætis- og öryggismálum og svo mun hafa verið um Stonewall. En tíðar rassíur voru alvarleg ógnun við vinsældir staðanna, þær fældu frá gesti og þess vegna voru eigendur þeirra vanir að kaupa sér frið fyrir heimsóknum lögreglunnar. Staðarhaldarinn á Stonewall mun hins vegar hafa svikist um að afhenda henni „tekjutrygginguna“ í júnímánuði. Það fylgir líka þessari sögu að rassíur voru drjúg búbót fyrir illa launaða lögregluþjóna því að borgarlögreglan átti síður en svo neitt sældarlíf, ekki frekar en þeir sem hún átti í höggi við.

Átökin stóðu alla helgina og talið er að nær fjögur þúsund manns hafi tekið þátt í þeim. Þegar baðstrandarhommarnir sneru heim sólbrúnir og sællegir í helgarlok fengu þeir loksins fréttirnar. Íbúar í New York fréttu síðan af óeirðunum miðvikudaginn 2. júlí þegar Village Voice kom út og hampaði slagorðinu „Forces of Faggotry“. Reyndar var það gamall orðaleppur og hafði áður verið notaður í háði um þá sem menn héldu að kynnu ekki að berjast, en allt í einu var ekkert háðslegt við þetta gamla háðsyrði. Og nú varð ekki aftur snúið – heimurinn var ekki lengur sá sami og áður.

Sárafáar ljósmyndir hafa varðveist frá þessari sögulegu helgi, menn höfðu í öðru að snúast en að festa söguna á filmu og fáa fréttaljósmyndara grunaði mikilvægi þess sem gerst hafði. En fáeinar frásagnir eru til þótt þeim beri ekki fyllilega saman um það sem gerðist.

Einn þeirra sem lagði leið sína niður í Kristófersstræti sunnudagskvöldið 29. júní var homminn og skáldið Allen Ginsberg – á ferð með vini sínum. Hann vildi endilega inn á Stonewall. „Ég hef aldrei komið þar,“ sagði hann og stikaði hlæjandi inn götuna, veifaði á báða bóga til lögregluvarðanna og sendi þeim friðarmerki. Af skáldlegu innsæi sá hann strax hvers konar tímamót höfðu orðið í sögunni og hafði orð á því við félagann. Svo hélt hann inn á Stonewall og var strax kominn út á dansgólfið. Á leiðinni heim lét Ginsberg þessi fleygu orð falla: „Veistu hvað, þeir eru svo fallegir núna, strákarnir þarna inni. Hann er horfinn þessi sársauki sem var í augum allra homma fyrir tíu árum.“

Í bráðum hálfa öld hafa lesbíur og hommar á Vesturlöndum minnst átakanna í Kristófersstræti. Þegar kom fram á tíunda áratug aldarinnar slógust tvíkynhneigðir og transfólk í þann hóp sem sá ástæðu til að fylkja liði á strætum gegn gagnkynhneigðu ofbeldi og forræði í smáu og stóru og síðar bættist intersex fólk í þennan litríka hóp. Hátíðin gekk fyrstu árin undir nafninu „Christopher Street Day“, síðar hlaut hún heitið „Gay Pride“ en nefnist nú yfirleitt bara „Pride“ og er þá tengt nafni borgarinnar sem á hlut að viðkomandi hátíð. Hátíðahöldin eru ekki lengur bundin síðustu helgi í júní heldur eru þau haldin á ýmsum tímum &aacute
;rs svo lengi sem ætla má að sólin skíni á göngufólk. Sérhver hátíð hinsegin fólks sameinar mörg sjónarmið og margvíslegar tilfinningar, hún er öðrum þræði minningarhátíð þeirra sem urðu undir í leitinni að betra lífi, en henni er líka ætlað að staðfesta stolt og gleði þátttakenda og sýna samstöðu með þeim sem sæta mannréttindabrotum fyrir kynhneigð sína eða kynvitund hvar sem er í heiminum

© Þorvaldur Kristinsson 2014

5,014 Comments

Skrifaðu athugasemd