Við eigum öll hvert annað – Margrét Pálmadóttir í viðtali við Þorvald Kristinsson

By 1. janúar, 2006Uncategorized

Svo lengi sem ég man eftir mér hef ég alltaf þekkt fordóma. Þegar sonur minn sagði mér að hann væri hommi þurfti ég ekki að leita langt til að setja mig í sporin hans. Samt hafði ég engin kynni af þeim fordómum sem snúast um kynhneigð fólks fyrr en ég var orðin fullorðin kona.

Foreldrar mínir skildu þegar ég var tveggja ára og það var vondur skilnaður þar sem hart var barist. Móðir mín varð undir í átökunum og glataði forsjá yfir börnum sínum, „börnin voru dæmd af henni“ eins og það hét. Í kringum mig var fólk sem tókst á um tilfinningar, deildi og reifst. Ég ólst síðan upp hjá föðurbróður mínum og konu hans, fyrst á Húsavík og síðan í Hafnarfirði en þangað kom ég sex ára.

Ég eignaðist fósturforeldra sem ólu mig upp sem einkabarn sitt, vernduðu mig eins og þau gátu og voru mér óumræðilega góð. En þau gátu ekki verndað barn sitt fyrir fordómum heimsins. Úr öllum hornum heyrði ég þessar raddir, það fór ekki á milli mála að það þótti næsta grunsamlegt að mamma skyldi hafa glatað forsjá yfir börnum sínum enda sjaldgæft. „Hvað, var hún svona mikil fyllibytta?“ Og hver trúði mér þótt ég segði sannleikanum samkvæmt að svo hefði ekki verið. Ekki bætti úr skák þegar hún tók saman við Bandaríkjamann og eignaðist með honum barn, „kanabarn,“ sögðu raddirnar í kringum mig. Alls staðar var fólk með sterkar skoðanir á lífsreynslu minni. „Þú átt að heimsækja hana mömmu þína oftar.“ „Hvora mömmu þína elskarðu meira?“ Smám saman komst ég að því að gildismat manna og sannleikurinn fóru ekki saman, skoðanir fólks voru á skjön við sannleikann. Ég lærði að skilja hvað orðið fordómar merkti.

Á yfirborðinu var allt svo öruggt og tryggt en undir niðri lifði ég í tilfinningalegu umróti sem fæstir tóku eftir. Ég skynjaði að ég var í minnihluta, öðruvísi en aðrir vegna uppruna míns en var ekkert að bera það á torg. Og ég brást til varnar á minn hátt, mér varð það snemma hjartans mál að enginn yrði dæmdur fyrir það sem hann er eða það sem hann lendir í. Fyrir skömmu minnti gamall skólafélagi úr barnaskóla mig á atvik sem lýsir þessu: Hann var nýfluttur heim frá Noregi og talaði íslenskuna með sterkum norskum hreim. Auðvitað var honum strítt, hann lagður í einelti, haldið utan við hópinn – þangað til ég kom honum til varnar, gekk til hans einn daginn og sagði: „Heyrðu, eigum við ekki að verða samferða heim?“ Eftir það var hann tekinn í hópinn. Ennþá er þetta leiðarljósið í vinnu minni með ólíkum konum í kórsöng: Ég leyfi mér ekki að dæma þær eftir stétt þeirra, útliti eða framkomu, ég veit að það er hjartað sem ég á að leita að.

Til þess að lifa af í samfélagi æsku minnar þurftu menn á kröftum sínum að halda og útsjónarsemi. Þetta var samfélag sjómanna þar sem verkaskiptingin var skýr, karlmannsverk voru karlmannsverk og meira að segja sterkustu konur hefðu ekki getað unnið margt af þessari vinnu. Þar var munur á konum og körlum, í verkaskiptingu og hugsunarhætti. Og fólki þótti það forréttindi að þurfa ekki að ganga í öll verk. Strákar voru strákar og stelpur voru stelpur þar til þau breyttust í karla og konur. Þá giftist fólk gjarnan og eignaðist börn. Reyndar gengu ekki allir í minni ætt í hjónaband. Piparsveinar voru þeir karlar kallaðir og ég velti því aldrei fyrir mér hvers vegna þeir voru það. Í þessu samfélagi var kynhneigð fólks ekki til umræðu.

Það varð hlutskipti mitt að fara aðra leið. Í Hafnarfirði fór ég að iðka listir, fyrst söng ég í barnakórum og lærði síðan tónlist og söng meðfram menntaskólanáminu. Þá kynntist ég öðrum heimi og augun opnuðust fyrir því hvað fólk er margvíslegt. Í söngnum kynntist ég fyrst hommum og undraðist hvað þeir virtust margir hafa fagrar raddir og mikla sönghæfileika. Fyrstu hommarnir sem ég vingaðist við voru listamenn og það var í samstarfi og vináttu við þá sem ég kynntist veröld þeirra.

Ég kom þess vegna ekki af fjöllum þegar ég kom heim til Íslands eftir nokkurra mánaða námsdvöl á Ítalíu árið 1987 og elsti sonur minn sagði mér að hann væri hommi. Ég hafði kvatt lítinn, ljóshærðan þrettán ára hnokka sem var í þann veginn að springa út sem karlmaður en á móti mér tók fjórtán ára strákur með aflitað hvítt hár og í skósíðum svörtum frakka. Hann hafði notað tækifærið á meðan mamma var í burtu, drifið sig út úr skápnum – og var ekkert að laumast með veggjum. Ég hafði ekki búist við þessu, ég hafði aldrei hugsað um hann sem homma, ég vissi að þeir eru jafn margvíslegir og þeir eru margir og fátt hægt að sjá fyrir í þeim efnum. Allar klisjurnar sem við lærum um hegðun verðandi homma áttu ekki við hann, það voru engir hljóðlátir dúkkuleikir þar á bæ, hann átti jafn mikið af góðum félögum meðal stráka og stelpna og sköpunargleðin var óþrjótandi. Enn man ég tímaritið Okkar á milli sagt sem hann gaf út með bestu félögum sínum.

Þótt ég væri óviðbúin fékk ég ekkert áfall, en eftir á að hyggja gaf ég líkast til ekki nógu mikinn gaum að þes
sum tímamótum, skildi ekki til fulls hvað það var mikið átak fyrir óharðnaðan ungling að játa kynhneigð sína fyrir heiminum. Ég man ekki að ég hafi nokkurn tíma spurt hann beint út: Hvernig líður þér með þetta? Hvernig vilt þú sjálfur að ég styðji þig? Ég var með öðrum orðum engin súpermamma, rétt rúmlega þrítug, fráskilin með tvo unga stráka og vann myrkranna á milli til þess að halda fjölskyldunni á floti. En ég var aldrei fjarlæg þessum nýja heimi hans, öðru nær. Ég man að hluti af unglingaklíkunni sem var að koma úr skápnum þessi misserin var nánast með annan fótinn heima hjá okkur. Það segir margt um son minn og hug hans til mín að hann skyldi treysta mér fyrir vinum sínum.

Ég varð fyrir miklu áfalli við heimkomuna frá Ítalíu þótt kynhneigð sonar míns væri ekki málið í sjálfu sér. Þeir bræður höfðu búið með föður sínum þetta hálfa ár sem ég var í burtu, og þegar ég birtist aftur uppgötvaði ég að sonur minn, sem áður hafði verið afbragðs námsmaður, hafði verið færður í bekk unglinga með svokölluð hegðunarvandræði. Þarna sátu þeir saman, nokkrir fjórtán ára hommar sem voru að reyna að átta sig á tilfinningum sínum og standa við þær gagnvart heiminum. Ég hafði samband við umsjónarkennarann og hellti mér yfir hann. Í skólanum var orðinn til risastór bekkur, uppfullur af vandamálum, krakkar sem höfð voru sér til þess að aðrir þyrftu ekki að verða varir við þau eða taka afstöðu til þeirra.

„Gerirðu þér grein fyrir því,“ spurði ég umsjónarkennarann, „að samkynhneigðu strákarnir eru sennilega að ganga í gegnum enn erfiðara gelgjuskeið en hinir og telst það þó nógu erfitt fyrir flesta?“

„Mér kemur það ekki við,“ var svarið. „Það er ekki mitt vandamál þótt þessir strákar segist vera hommar.“

Þegar ég lít til baka sé ég fyrir mér hysteríska og ofsareiða mömmu – og afskaplega einmana. Á þeim tíma var allri umræðu um samkynhneigð haldið utan grunnskólanna, fræðslustarf Samtakanna ´78 sem var unnið af sjálfboðaliðum var eingöngu bundið framhaldsskólum sem þáðu boð þeirra um fyrirlestra og umræður. Ekkert fræðandi var að finna innan grunnskólans, það eina sem samkynhneigðir nemendur heyrðu þar var niðurlægjandi tal og fúkyrði. Verst var að mig skorti algjörlega stuðning og fordæmi frá öðrum foreldrum í sömu sporum. Enginn hópur aðstandenda samkynhneigðra starfaði á þeim árum. Síðar er mér stundum hugsað til strákanna í B-bekknum og hef reynt að fylgjast með því hvernig þeim reiddi af. Langflestir þeirra spjöruðu sig vel þótt skólinn sviki þá um stuðning þegar mikið lá við. Auðvitað hafa þeir orðið að vinna úr reiði sinni og niðurlægingu og það tekur tíma og tefur stundum fyrir þroskanum.

Hefði þetta gerst í dag léti ég þessa niðurlægingu aldrei yfir mig og mína ganga. Vandi minn árið 1987 var sá að ég var einstæð, þreytt móðir, yfir mig reið og skorti svo sárlega nauðsynlega sjálfsvirðingu.

Skemmtanalífið var það sem ég óttaðist mest þegar sonur minn fór að lifa sem hommi. Það fylgdi þessari kynslóð samkynhneigðra mikið djamm, kannski var það aðferð margra til að deyfa sársaukann sem fylgdi auðmýkingunni. Á þessum árum var umræðan um alnæmi í algleymingi og ekki beint falleg. Hommar voru hafðir á orði um leið og alnæmi, það gekk reglulega á með ofsóknum í blöðum og ekki létt fyrir unglinga að verða fyrir þeim.

Kannski djammar ungt samkynhneigt fólk ennþá jafn mikið og þessir krakkar á níunda áratugnum. Það er sjaldan friður fyrir ofsóknunum. Í hvert sinn sem hillir undir nýjar réttarbætur handa lesbíum og hommum fara ofsóknaröflin alltaf af stað. Lítum bara á árin 1996 eða 1999. Þeir eldri þekkja söguna og láta sér kannski ekki bregða en fyrir yngstu kynslóð homma og lesbía er þetta grimmdaræði í fjölmiðlum nýtt í hvert sinn.

Ég sá minn kost vænstan að taka gleðskap unglinganna föstum tökum. Ég bauð vini sonar míns, stráka og stelpur, velkomin en gaf ekki kost á neinu sukki á heimilinu. Bannaði það beinlínis því ég er þeirrar skoðunar að unglingar verði að sleppa vímunni á meðan þeir eru að skilja tilfinningar sínar, sættast við þær og læra að virða þær. Ég man að ég sagði einhvern tíma við son minn þegar ég hafði mestar áhyggjur af honum: „Þótt þú sért hommi þá þarftu ekki að gera djammið að lífshugsjón þinni og aðalstarfi. Eitt er hvað við erum – annað hvað við gerum!“

Tilhugsunin um það að hann nyti kynlífs með öðrum karlmönnum vafðist ekki fyrir mér enda hef ég aldrei haft viðbjóð á kynlífi tveggja karla. Kynlíf hefur aldrei verið ljótt í mínum huga vegna þess að ég þekki ekki ljótt kynlíf og hef aldrei neyðst eða freistast til þess. Ég tek mér það vald að velja það sem ég vil og vænti þess að aðrir fari eins að. Þegar ég sá son minn síðar meir gera það sama og ég, að velja sér sinn mann, þá leið mér vel.

Í fyrstu þurfti ég samt að venjast þeirri staðreynd að litli drengurinn minn var orðinn virk kynvera, en þá skoðaði ég eigin tilfinningar, spurði og svaraði sjálfri mér: Þegar kemur að nautnunu
m vill hann það sama og ég, vill gera svipað við karla og ég sjálf. Flóknara er það ekki. Aðeins eitt er eitur í mínum beinum: Að leita að ástinni og nautninni í einhvers konar vímu, sjálfsvorkunn eða vanvirðingu. Það eina sem mig varðar um þegar kemur að ástum og kynlífi barna minna, hvort sem þau eru samkynhneigð eða gagnkynhneigð, er að þau velji það sem þau telja best fyrir sig og láti sér ekki nægja það næstbesta eða þaðan af lakara.

Smám saman varð samkynhneigð hans til þess að styrkja fjölskylduna þótt ekki kæmi alltaf til af góðu. Fyrir nokkrum árum var bróðir hans, fimm árum yngri, á leiðinni niður Laugaveg, allur á iði með vasadiskóið í eyrunum. Fær hann þá ekki einn á lúðurinn án tilefnis með orðunum „helvítis homminn þinn!“. Bíddu nú við, er hann að slá mig af því að hann heldur að ég sé stóri bróðir minn, og ætlaði að svara í sömu mynt en stillti sig og hugsaði: That´s your fucking problem! Og allt í einu sá hann heiminn í nýju ljósi: „Ég vildi miklu heldur standa undir þessu höggi sem hommi en að fara að gefa þá skýringu að það væri reyndar ekki ég sem væri homminn heldur bróðir minn sem byggi núna í Þýskalandi. Veistu það, mamma, þetta var eins og að vakna til lífsins, nú veit ég að okkur ber öllum skylda til að breiða út gott gegn fordómunum, fyrir okkur öll.“

Eitt kjaftshögg á förnum vegi og hann eignaðist lærdóm, samúð, skilning.

Stundum er ég spurð um sorgina, hvort ég hafi ekki þurft að glíma við hana þegar hann sagði mér að hann væri hommi. Það kannast ég ekkert við og hef ég þó leitað að henni. Sorg er nafnið á þeirri tilfinningu sem vaknar þegar maður missir eitthvað eða þarf að kveðja eitthvað. Þegar um foreldra samkynhneigðra er að ræða eru það oftast bara úreltar og fyrirfram gefnar hugmyndir um það hvernig fólk eigi að lifa og haga sér í samfélaginu. Ég var ekki að kveðja hann son minn þegar hann sagði mér frá því að hann væri hommi, hann stóð þarna ljóslifandi fyrir framan mig, fullur af viti og lífsorku og ég gat knúsað hann og kysst hvenær sem mig langaði til. Þegar við komumst að því að afkvæmi okkar er lesbía eða hommi, þá erum við ekki að kveðja það, við erum að kveðja þær hefðir sem fylgja lífsstíl gagnkynhneigðs fólks. Ég þarf ekki að kveðja eitt eða neitt í þeim efnum þótt sonur minn sé hommi, þessar hefðir finn ég hjá öðrum. En í honum fæ ég annað í staðinn, annan lífstíl, annan veruleika og hefðir – samkynhneigðar hefðir sem eru ekki ómerkari en hinar, aðeins sjaldgæfari. Að láta þetta vefjast fyrir sér er sjálfsvorkunn og sjálfumgleði.

Þar með er ekki sagt að við mæðginin þurfum ekki að vinna með tilfinningar okkar. Ég skynja stundum reiði í fari hans, hún er vel dulin því að sem fullorðinn maður er hann agaður og ber ekki tilfinningar sínar á torg. Víst hefur hann ástæðu til að vera reiður, hann hefur eflaust engu gleymt af niðurlægingunni í skólanum á sínum tíma. En ég þekki ekki ástæður þeirrar reiði sem ég þykist skynja, kannski er hún miklu bernskari og frumstæðari, orðin til löngu áður en hann komst á kynþroskaskeið. Þótt ég þekki ekki upptök þessara tilfinninga þá er ég tilbúin að taka á mig þann hluta sem ég á og get leyst. Vonandi gerum við þetta í sameiningu þegar við fáum hugrekki til.

Það er ekki hollt að ala á neikvæðum tilfinningum eða reyna að þrýsta þeim ofan í sálardjúpið. Þar eru þær eins og eldur og brenna okkur upp og að lifa sín mikilvægustu manndómsár án þess að reyna að leysa upp neikvæðar tilfinningar held ég að sé næstum lífshættulegt. Sennilega er ekkert eins erfitt og að vera barn og þaðan stafa flest okkar sár. En það er líka erfitt að breytast úr barni í fullorðna manneskju, kynnast sjálfum sér, hasla sér völl og komast til áhrifa. Nú er ég komin á þann aldur að ég er tilbúin að taka ásökunum barna minna, hjálpa þeim við að græða sárin og eyða reiðinni hafi þeim ekki þótt ég vernda þau sem skyldi þegar mikið lá við.

Við vorum ekki mörg sem stofnuðum hóp foreldra og aðstandenda samkynhneigðra árið 1997 og fórum að hittast á vettvangi Samtakanna ´78. En það sem ýtti okkur af stað voru yfirþyrmandi skrif í blöðum frá sértrúarfólki um það bil sem frumvarpið um staðfesta samvist samkynhneigðra var lagt fram á Alþingi. Ég vissi að þörfin var fyrir hendi en gerði mér kannski ekki grein fyrir því hversu margir áttu um sárt að binda fyrr en við rufum þögnina. Mér er minnisstæð kona sem kom til mín eftir að ég hafði komið fram í útvarpi og sagði: „Ég er að fara gifta dóttur mína, en það er enginn glaður í fjölskyldunni nema ég. Vegna þess að hún hefur valið sér konu.“

Svona get ég haldið áfram. Ég þekki ungan listamann, færan dreng í sínu fagi, sem ekki má koma með kærasta sína heim til foreldranna þótt þeir hafi í orði kveðnu sætt sig við þá staðreynd að hann er hommi. Er þetta það að elska barnið sitt? Flest ungt fólk um tvítugt er upp á foreldra sína komið með húsnæði, til dæmis þegar það stendur í flutningum milli íbúða, en piltar eins og hann mega ekki koma heim vilji þeir búa með kærasta sínum eins og hin
systkinin.

Svo margir foreldrar lesbía og homma eru komnir óttalega stutt þegar að því kemur að styðja börn sín í því félagslega uppeldi sem tekur við þegar hinu eiginlega uppeldi lýkur. Þeim hefur enn ekki tekist að skilja að það er lítil og léleg ást að sveipa ástarlíf barnanna þögninni í stað þess að bjóða þau velkomin – upphátt. Á því stigi málsins fá foreldrasamtökin sinn tilgang: Gerðu okkur að aðstandendum þínum á meðan pabbi þinn og mamma eru að átta sig.

Ég hef ekki legið á skoðunum mínum á liðnum árum og ennþá fæ ég iðulega framan í mig sömu andstyggilegu athugasemdirnar þegar ég tala máli samkynhneigðu barnanna okkar, sömu sjúklegu fúkyrðin í nafnlausum símtölum, sömu dónabrandarana og sömu heimskulegu sjálfsréttlætinguna þegar ég geng á fólk og spyr hvað það meini eiginlega. Um leið verð ég að játa að ég hef varla náð til vinkvenna minna eða allrar minnar fjölskyldu. Lítilsvirðingin sem mætir samkynhneigðum er eins og illgresið sem sáir sér endalaust hvernig sem maður reynir að uppræta það. Ennþá sé ég kunningjana setja upp þennan sérstaka svip í veislum og stinga saman nefjum: „Guð minn góður, hann sonur hennar . . . er víst hommi.“ Þegar ég hvessi mig og geng á viðkomandi kemur eitthvað sem á að vera afsökun: „Fólk er nú kannski að bíða eftir barnabörnum!“ Og ég svara í hita augnabliksins: „Hvaða rugl er þetta, hvernig vogið þið ykkur að tala um barnabörn þegar þið eruð ekki færar um að elska börnin á öðrum forsendum en ykkar eigin þröngu?“

Svo fer ég að hugsa: Við erum sennilega býsna umtöluð í boðum bæjarins, hommar, lesbíur og fjölskyldur þeirra. Að öllum líkindum. En nýtum okkur það til hins besta, látum ekki umtalið draga okkur niður. Ef við skynjum það sem eitthvað neikvætt töpum við tíma. Leyfum hinum að hjakka í sínu neikvæði en notum sjálf tímann til að vinna með sjálfum okkur, samfélaginu, heildinni. Við upprætum aldrei fordómahjalið til fulls, látum það samt ekki hindra okkur í því að vera hamingjusöm með það sem við erum. Víst kostar það aga, gífurlegan sjálfsaga að rata á hamingjuna. Sá agi snýst fyrst og fremst um það að horfast í augu við það hver maður er og taka ábyrgð á því.

Það er nefnilega ekki nóg að kalla aðstandendur til ábyrgðar. Allt of margir samkynhneigðir hafa látið hrekja sig upp í skýjaborgir og loftkastala í stað þess að standa á jörðinni, í samfélaginu, í sannleikanum. Of margir falla í þá freistingu að lifa í lygi og sjálfsblekkingu og halda jafnvel að dauðinn sé útgönguleið. Auðvitað er ekki alltaf auðvelt að velja lífið, hvað eftir annað eru samkynhneigðum skipað skör lægra en hinum, í smáu og stóru. Og verst er það þegar manns nánustu leyfa sér slíkt. En er það ekki heldur lágkúrulegt að láta þörfina fyrir viðurkenningu annarra stjórna lífi sínu. „Hól gleður heimskan,“ segi ég stundum við konurnar í kórnum mínum. Ef maður lifir og starfar til þess eins að uppskera viðurkenningu annarra þá týnir maður sjálfum sér. Gleymum því ekki að sína stærstu sigra í sögunni hafa lesbíur og hommar unnið þegar þau fylgdu sinni innstu sannfæringu en létu vonina um viðurkenningu lönd og leið.

Ég á litla ósk lesbíum og hommum til handa: Að þau læri betur að fylgja sannfæringu sinni og njóta sérstöðu sinnar. Síðasta áratug hafa samkynhneigðir lagt mikla áherslu á réttinn til fjölskyldulífs, hjónabands og barneigna, fá að njóta þess sama og hinir. Síst ætla ég að snúast gegn sjálfsögðum kröfum um jafnrétti. En áttum okkur á því að börn eru ekki eina hamingjan í lífinu, heldur ekki maki. Þótt það geti verið dásamlegt að mynda fjölskyldu þá er maðurinn alltaf einn þegar á reynir. Þótt margir samkynhneigðir eigi börn eru barneignir ekki sjálfgefið mál meðal þeirra og þeir ættu að kunna að njóta þess að eiga völ á öðru hlutskipti en gengur og gerist um flestar gagnkynhneigðar manneskjur. Af hverju ætti hvötin til að tímgast og fjölga sér að stýra lífi okkar allra og vera talin æðri í lífinu en það að rækta eigin hæfileika og gáfur á óteljandi sviðum, rækta víðsýnina, leita að vandaðri menntun.

Þegar ég kynntist samkynhneigðu fólki í fyrsta sinn varð mér sérstaklega starsýnt á frelsi þess og möguleika til að ráða tíma sínum. Ég vildi óska þess að kröfur samtímans um réttinn til að stofna fjölskyldu, staðfesta samvist eða gifta sig og eignast börn verði ekki til að spilla dýrmætri sérstöðu samkynhneigðs fólks sem felst í þessu einstaka svigrúmi og frelsi til skapandi athafna.

Það var í háloftunum sem ég orti þetta ljóð. Ég var á heimleið úr tónleikaferð til Rómar í byrjun vetrar 1997. Mér leið vel, ég hafði náð árangri í starfi kórstjóra og fann sjálfsvirðinguna streyma gegnum kroppinn. Ég sat með Kristján, yngsta drenginn, átta vikna, í fanginu og var að gefa brjóst, með mikla mjólk í heilanum og næm að sama skapi.

Ég hef fætt fimm börn í heiminn og fjölskyldan er miðdepillinn í lífi mínu. Án hennar get ég ekki lifað og það á sína ástæðu. Á þriðja ári missti ég fjölskyldu mína, eina
langa viku var ég alein með vandalausum á barnaheimilinu á Silungapolli og í tilfinningaminninu lifir enn tómið og einmanaleikinn frá þeim dögum. Alla ævi hef ég verið að fylla upp í þetta tóm – ég vinn með fólki, vinn í fólki og fólk vinnur í mér, ég veit ekkert í náttúrunni eins fallegt og fólk. Efst í huganum eru börnin mín, hvert þeirra einstakt og sjálfu sér líkt þótt skyldleikinn leyni sér ekki.

Í hvert sinn sem ég fæ nýtt barn í fangið miða ég það við börnin sem á undan eru komin, ekki síst þann elsta, það er við frumburðinn sem maður miðar oftast. Hvernig verður hárið, hvaðan koma tennurnar, hvernig verða þau á vöxtinn? Og ég nota þann yngsta til að endurupplifa elstu drengina tvo, Maríus og Hjalta Þór. Þegar ég átti þá var ég sautján og tuttugu og tveggja ára, svo ung, á helmingi meiri ferð en ég er núna og gaf mér ekki tíma til að staldra við og njóta. Þegar ég sé líkindi með þeim og Kristjáni litla þá vakna minningar og meira en það, ég upplifi aftur það sama, sækist eftir að fara hvað eftir annað í gegnum sömu tilfinningarnar. Og sem ég sat þarna í flugvélinni streymdu þau öll í gegnum mig.

Það er ekkert í þessu lífi mér jafn
dýrmætt og börnin mín.
Ég vil þeim allt hið besta
og er tilbúin að leggja eitt og annað
á mig þeirra vegna.
Jafnvel fórna.
Ég reyni að leggja mitt af mörkum
til að búa þeim betri heim.
Fer í endurvinnsluna,
takmarka útgufun eiturefna,
hef hemil á stjórnmálamönnum
og viðskiptajöfrum,
örva listsköpun,
menntunarmöguleika,
heilsugæslu og margt fleira.

Nú eldist ég,
halla aftur augunum
og íhuga –
hver eru börnin mín?
Eru það þau fimm sem kalla “mamma”?
Eða söngfuglarnir
frá tveggja ára til tvítugs?

Eru það duglegu börnin
eða hin fullkomnu,
fríðu,
eða fötluðu?
Vil ég þeim öllum jafn vel?
Á ég að elska þau skilyrðislaust
eða velja úr
og hafna hinu sem verra þykir?
Gaf Guð mér öll þessi börn
eða koma einhver annars staðar frá?

Það er enginn fæddur af sjálfum sér
– né fyrir sjálfan sig.
Við eigum öll hvert annað
– hvert með öðru.
Við sem erum komin á foreldraaldur
erum öll foreldrar
eins og hin yngstu eru öll börn.
Þess vegna er homminn minn
homminn þinn
og Guð gaf þér hann
eins og mér.

Viðtal þetta birtist upphaflega í bókinni Samkynhneigðir og fjölskyldulíf. Ritstjórar: Rannveig Traustadóttir og Þorvaldur Kristinsson. Reykjavík: Háskólaútgáfan 2003. Sé vitnað til viðtalsins á prenti, skal sótt í textann í þeirri bók.

Copyright © Þorvaldur Kristinsson 2003
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

5,256 Comments

Skrifaðu athugasemd