Frá Velunnurum Samtakanna ´78

By 6. júní, 2016Uncategorized

Vegferð sitjandi stjórnar Samtakanna ´78 út í ógöngur

Aðdragandinn

Fyrir þremur árum nálguðust forráðamenn BDSM á Íslandi Samtökin ´78 fyrst að eigin sögn og vildu komast undir hinsegin regnhlífina. Lítið var gert með það til að byrja með en 19. febrúar 2015 sendi félagið formleg umsókn: „BDSM á Íslandi óskar eftir því að tengjast Samtökunum‘78. Á aukaðalfundi í ágúst 2014 var samþykkt einróma að fela stjórn félagsins að tengjast Samtökunum’78 á formlegan hátt. BDSM fólk vill komast undir hinsegin regnhlífina og verða fullgildir aðilar hinsegin samfélagsins.“

Ákvað þáverandi stjórn Samtakanna ´78 að leggja þetta ekki undir aðalfund 2015 og fátt var gert annað í framhaldinu en að halda tvo kynningarfundi á hvað BDSM væri. Þó mátti vera ljóst að sameiginlegir hagsmunir félaganna voru engir samkvæmt lögum félaganna eins og seinna var staðfest í tveimur lögfræðiálitum.

Eðlileg viðbrögð hefðu verið að málið endaði þarna eða að byrjað væri að huga að lagabreytingum hjá báðum félögunum í samvinnu allra félagsmanna til að sameina hagsmuni. Hvorugt félagið gerði slíkt fyrir fundinn 5. mars 2016.

Einhver hefði líka látið sér detta í hug að stofna bara regnhlífarbandalag hinsegin félaga því Samtökin ´78 eru samtök með einstaklingsaðild og hinsegin samfélagið nær langt út fyrir raðir þeirra. Það eru fleiri „hinsegin“ félagasamtök á landinu sem gætu blómstrað í samvinnu við önnur samtök innan slíks regnhlífarbandalags og langt því frá að hinsegin samfélagið sé einskorðað við lóðarmörk Samtakanna ´78.

Þegar sitjandi stjórn Samtakanna ´78 talar um vandað undirbúningsferli fyrir kosningarnar um hagsmunaaðild BDSM á Íslandi stenst það enga skoðun.

 

Aðalfundurinn 5. mars

2016 tók þáverandi stjórn ákvörðun um að bjóða upp á kosningu um hvort BDSM á Íslandi mætti vera hagsmunafélag þrátt fyrir þá staðreynd að ekki voru fyrir hendi sameiginlegir hagsmunir enda BDSM ekki meðal þeirra hópa sem skilgreindir eru í gr. 1.2 í lögum samtakanna: „lesbíur, hommar, tvíkynhneigðir, asexual, pankynhneigðir, intersex fólk og trans fólk, hér eftir nefnd hinsegin fólk“[1].

Til að breyta skilgreiningu laga Samtakanna ´78 á þeim hagsmunum sem þeim er ætlað að vinna að þarf 2/3 hluta atkvæða á löglegum aðalfundi. Ekki var 2/3 hluti atkvæða með því að taka inn BDSM á Íslandi sem aðildarfélag á þessum né seinni fundum og því standa fullyrðingar um slíkt samþykki enga skoðun.

Eins og sést á yfirlýsingu á heimasíðu Samtakanna ´78 [2] var starf kjörnefndar einstaklega ótrúverðugt og jafnvel hreint farsakennt. Ekki var boðið upp á umræður um málefni BDSM á Íslandi sem aðildarfélags á fundinum og kosningin um aðildina fór ekki eftir lögum félagsins. Með stuttum fyrirvara [3] ákvað kjörnefnd, væntanlega með samþykki stjórnar en þvert á lög félagsins að bjóða upp á einhverskonar utankjörstaða kosningu og auglýsti jafnframt að mæta mætti á fundinn með umboð frá félagsmönnum og fá þannig að kjósa fyrir fjarstadda félagsmenn. Síðan gleymdist að telja utankjörfundaratkvæðin áður en úrslit voru kynnt. Einnig var kosið á sama fundi milli 12 einstaklinga í 10 sæti í trúnaðarráði og eftir fyrstu talningu voru þeir allir 12 sagðir hafa hlotið kosningu í trúnaðarráð en það leiðrétt síðar á fundinum.

Eftir aðalfundinn tilkynnti nýkjörin stjórn að BDSM á Íslandi hefði hlotið hagsmunaaðild að Samtökunum ´78 [4] en jafnframt að þau sem skipuðu stjórnina bæru ekki ábyrgð á því [5]:  „Ákvörðun um að veita BDSM á Íslandi aðild er hvorki tekin af núverandi né fyrrverandi stjórnum félagsins. Hún er tekin af æðstu stofnun þess, aðalfundi. Félagsfólkinu sjálfu. Hvorki núverandi né fyrrverandi stjórnir félagsins hafa á nokkrum tímapunkti tekið afstöðu til málsins eða gefið út ákveðna línu þar um.“

Þegar ferlið er skoðað sést að þetta stenst ekki skoðun. Þessar stjórnir buðu til þessara ólöglegu kosninga í stað þess að vinna að sátt um þá breytingu á lögum til þyrfti eða bara að efna ekki til þessara kosninga. Tveir kynningarfundir á BDSM eru ekki umræðufundir um breytingar á áður skilgreindum hagsmunum þeim er Samtökin ´78 eigi að vinna að.

 

Aðalfundur 2016 reynist ólöglegur

Sitjandi stjórnin sendi frá sér tilkynningu varðandi lögmæti aðalfundarins [6] og lýsti því að í ljós hefði komið formgalli á boðun aðalfundarins þegar þau leituðu til lögmanns. Til aðalfunda á að boða  bréfleiðis og þó nokkurra ára hefð væri fyrir öðru standa lög „æðri hefðum félagsins“.

Aðalfundurinn var sem sagt ólöglegur af nokkrum ástæðum:

  • Ekki var boðað til hans samkvæmt ákvæðum laga félagsins.
  • Framkvæmd kosninga á fundinum var ekki í samræmi við lög félagsins eins og áður var minnst á.
  • Ekki var getið um í aðalfundarboði að kjósa ætti um Hinsegin Norðurland eða HÍN. &THO
    RN;ví var ólöglegt að kjósa um umsókn þeirra með þeim hætti sem gert var 5. mars 2016.
  • BDSM á Íslandi átti ekki sameiginlega lögmæta hagsmuni eins og þeir eru skilgreindir í gr. 1.2 í lögum Samtakanna ´78 og því átti aldrei að leggja fram umsókn þeirra til atkvæðagreiðslu.

Í minnisblaði sínu [7] túlkar lögmaður sitjandi stjórnar texta í gr. 1.3 um að „styðja önnur félagasamtök sem vinna að mannréttindum“ þannig að nóg sé að hagsmunafélag vinni „að eflingu mannréttinda“ til að geta talist til hagsmunafélaga. Grein 1.3 fjallar um hvernig vinna eigi að þeim markmiðum samtakanna sem skilgreind eru í gr. 1.2 og byggir því á gr. 1.2 og getur þar af leiðandi ekki bætt við hana svona almennum hagsmunum og því stenst þetta ekki skoðun. Þetta kemur skýrt fram í öðru lögfræðiáliti sem unnið var fyrir Velunnara Samtakanna ´78 og greint verður frá hér á eftir.

Samtökin ´78 eru aðildarfélag Mannréttindaskrifstofu Íslands [8] og beinna liggur því við að BDSM á Íslandi sæki um aðildarfélgasaðild þar varðandi störf sín tengd mannréttindum en hjá Samtökunum ´78.

 

Lög innihalda undirstöðureglur um skipulag og starfsemi samtakanna

Í minnisblaði lögmanns stjórnar Samtakanna ´78 [9] segir jafnframt:

„Samtökin ’78 er sjálfstæður lögaðili, en um er að ræða skráð félagasamtök og byggir stjórnkerfi þeirra á lögum Samtakanna ’78. Lög Samtakanna ’78 gegna því lykilhlutverki að innihalda undirstöðureglur um skipulag og starfsemi félagsins. Með inngöngu í Samtökin ’78 undirgangast félagsmenn lög Samtakanna ’78 og aðrar reglur eða samninga sem eiga sér stoð í lögunum, hvort sem þeir hafa kynnt sér efni þeirra eða ekki. Á sama tíma hefur tilgangur eða markmið Samtakanna ’78 grundvallarþýðingu þegar kemur að túlkun álitaefna um stjórnun félagsins.“

Hvergi í lögum Samtakanna ´78 eru þau skilgreind sem regnhlífarsamtök heldur eru þau samtök með einstaklingsaðild. Texti um að „lesbíur, hommar, tvíkynhneigðir, asexual, pankynhneigðir, intersex fólk og trans fólk, hér eftir nefnd hinsegin fólk“ og að samtökin séu samtök „hinsegin fólks“ er bara það. Þetta eru samtök fólks sem tilheyrir þessum tilteknu hópum og ekki er hægt að bæta við þessa upptalningu nýjum hópum nema með lagabreytingum og þær verða ekki gerðar nema með samþykki 2/3 hluta atkvæða félagsmanna á löglegum aðalfundi.

Sú túlkun að ef nýr hópur skilgreinir sig sjálfur sem „hinsegin“ þá eigi hann sjálfkrafa heima undir skilgreiningu laga Samtakanna ´78 á orðinu „hinsegin“ stenst enga skoðun.

Lög félagsins skapa þann ramma sem öllum ber að starfa innan, ekki síst stjórn, framkvæmdastjóra, trúnaðarráði og kjörnefnd. Margir þessara aðila virðast ósáttir við lög þau sem félagsmenn settu Samtökunum ´78 og vilja virða þau að vettugi. Í frétt á mbl.is [10] segir sitjandi varaformaður (og sitjandi formaður meðan formaður er í ótímabundnu veikindaleyfi) „Hvað þetta tiltekna mál varðar hafi við yfirferð laganna hinsvegar komið í ljós að þau eru meingölluð.“

Þarna er öllu snúið á hvolf og eftirleikurinn er eftir því. Þetta tiltekna mál átti auðvitað að byrja á því að fólk í stjórn Samtakanna ´78 kynntu sér lög félagsins sem þeim ber að starfa eftir. Sú túlkun sitjandi stjórnar að Samtökin ´78 sé bara það sem þeim sýnist og ef lögin segja eitthvað annað séu lögin bara meingölluð stenst enga skoðun.

Í sama viðtali á mbl.is segir sitjandi varaformaður jafnframt um óánægjuraddirnar: „En við erum allt í einu að heyra raddir um það núna að fólk sé ósátt við að þetta sé ekki lengur félag þess. Fólk er að segja að samtökin eigi ekki að berjast fyrir réttindum gagnkynhneigðra heldur samkynhneigðra“. 1978 var stofnað félag homma og lesbía, seinna var tvíkynhneigðum bætt inn í lögin og enn seinna trans fólki og intersex fólki óháð kynhneigð. Aldrei var mörkuð sú stefna af félagsmönnum að Samtökin ´78 berðust fyrir réttindum gagnkynhneigðra sem ekki tilheyrðu hinum tiltölulega litlu hópum trans eða intersex fólks. Samtökin hafa í 38 ár verið að stærstum hluta samtök samkynhneigðra. Þessi skoðun sitjandi varaformanns að það sé eitthvað nýtt stenst enga skoðun en skýrir kannski þá gjá sem er á milli sitjandi stjórnar og félagsmanna Samtakanna ´78.

 

Krísufundur á Hallveigarstöðum 10. mars 2016

Eftir aðalfundinn 5. mars urðu hörð viðbrögð. Bæði mótmælti fólk þessum ólögmætu áherslubreytingum og vinnubrögðum og uppsagnir byrjuðu að berast félaginu, oft með orðum í þá veru að Samtökin ´78 ættu ekki lengur samleið með viðkomandi.

Sitjandi stjórn boðaði til opins fundar á Hallveigarstöðum 10. mars undir yfirskriftinni Samtal við stjórn. Formaður sitjandi stjórnar endurtók nokkur atriði eins og að sitjandi stjórn afsalaði sér ábyrgð á stöðunni, hún væri á ábyrgð félagsmanna, og lýsti jafnframt yfir að aðalfundurinn sem haldinn hefði verið væri í raun ólöglegur og bætti við: „Að þessu óþægilega áliti lögmannsins fengnu hefði verið hægt að fara í ha
rt og láta aðalfundinn standa en það hefði leitt strax í ógöngur. Náttúruleg afleiðing af þessum orðum lögfræðingsins hafi verið að leggja spilin á borðið, bíta í það súra epli og taka þessa umræðu áfram.“

Já það hefðu einmitt verið rétt viðbrögð að viðurkenna mistök og að hefja undirbúning löglegs aðalfundar. Sitjandi stjórn ákvað hinsvegar að „fara í hart og láta aðalfundinn standa“. Á fundinum voru raktar ýmsar hugsanlegar hindranir á því að hægt væri að halda löglegan aðalfund úr því sem komið væri en þær voru allar jafnóðum hraktar með skýrum rökum af viðstöddum. Vilji fundargesta í lok fundar var líka skýr, kosið var með handauppréttingu að boða bæri til löglegs aðalfundar með 21 atkvæði á móti 17.

 

Félagsfundur 9. apríl Hallveigarstöðum látinn vinna aðalfundarstörf

Í stað þess að „bíta í það súra epli“ að viðurkenna mistök, axla ábyrgð á stöðunni sem þarna var komin upp og segja af sér ákvað sitjandi stjórn að henni einni væri treystandi til að sitja við stjórnvölinn. Hún ákvað að halda enn einn kynningarfundinn á BDSM og boða svo til félagsfundar fimm vikum seinna þann 9. apríl. Á þeim fundi var gengið til aðalfundastarfa sem er óheimilt samkvæmt lögum félagsins. Slíkt stenst enga skoðun.

Fyrir fundinn var mikið um úrsagnir úr félaginu og jafnframt voru félagar BDSM á Íslandi hvattir til að ganga í Samtökin ´78, mæta á fundinn og hafa áhrif á niðurstöður þar. Sumir gengu jafnvel í félagið á fundinum og greiddu atkvæði um ákvarðanir ólöglegs aðalfundar félags fimm vikum áður sem viðkomandi hafði þá engin tengsl við.

Fundarstjórn þótti með eindæmum, kvartað var yfir að hvorki væri farið eftir almennum fundarsköpum né fundarsköpum Samtakanna ´78 [11]. Niðurstaðan var algjörlega marklaus eins og öllum mátti vera ljóst því ekki má vinna aðalfundarstörf nema á aðalfundi.

Fundarstjóri var lögmaður sitjandi stjórnar og í upphafsorðum sínum sagði hún sjálf [12]: „Við athugun á lögum samtakanna hafi komið í ljós að nauðsynlegt hefði verið að boða til fundarins með bréfpósti. Það hefði ekki verið gert og hafi fundurinn því verið ólögmætur og þar af leiðandi allar ákvarðanir sem teknar voru á honum.“

Ekki aðeins eru allar ákvarðanir sem teknar voru á fundinum 5. mars ólögmætar heldur allar ákvarðanir sem teknar hafa verið eftir það. Sitjandi stjórn hefur ekkert umboð til að skrifa undir samninga svo dæmi sé tekið. Sitjandi gjaldkeri hefur ekkert umboð til að fara með fjármuni félagsins.

 

Velunnarar Samtakanna ´78 skora á stjórnina

Í ljósi alls þessa hittist hópur sá sem nú kallar sig Velunnara Samtakanna ´78 og ræddu stöðuna. Flestir þekktust eftir störf sín í stjórn samtakanna á mismunandi tímabilum. Þeim ofbauð sú staða sem samtökin voru komin í. Hvernig sitjandi stjórn stefndi á frekari ögranir við félagsmenn. Ætluðu sér að sitja áfram umboðslaus og halda áfram að taka ákvarðanir um framtíð félagsins án gilds umboðs frá félagsmönnum eða yfir höfuð starfa í samræmi við þær leikreglur sem lög samtakanna setja þeim.

19. apríl funduðu fulltrúar Velunnaranna með sitjandi stjórn og lögðu fram einfalda skýra áskorun: „Við undirrituð skorum á sitjandi stjórn Samtakanna ‘78 að boða til nýs aðalfundar og  fara  þannig að lögum félagsins sem og fylgja eftir niðurstöðu fundar þann 10. mars 2016 um boðun nýs aðalfundar.“

6. maí 2016 svarar stjórnin og lýsir svar þeirra þekkingarleysi á gildi laga og eðlilegum starfsháttum í félagasamtökum. Hún sagðist hafa að leiðarljósi að „þar sem lagaákvæðum félagsins sleppir taki vilji félagsfólks við, eins og hann er lýðræðislega tjáður á félagsfundum.“ Sem sagt horfa fram hjá þeim grunnreglum að aðalfundur sé æðsta vald Samtaka ´78, að þar þurfi 2/3 hluta atkvæða til að breyta lögum þeim sem setja allri starfseminni ramma sem starfa ber innan. Þar með talið að halda beri aðalfund og kjósa stjórn.

Þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar bæði sitjandi formanns og lögfræðings sitjandi stjórnar um að aðalfundurinn væri ólöglegur reyndu þau að hrekja það og segja í svari til Velunnara Samtakanna ´78 [13]: „Vert er að geta þess að lögfræðiálit um að aðalfundurinn hafi verið ólögmætur liggur ekki fyrir“. Þetta stenst enga skoðun.

 

Samráð í lokuðum hóp

Enn kom sitjandi stjórn á óvart og boðaði til félagsfundar 18. maí 2016. Í fundarboði var minnst á áskorun Velunnara Samtakanna ´78 og sagt um svar sitjandi stjórnar: „Stjórn sér sér ekki fært að verða við þeim áskorunum og telur þá leið ekki vænlega til að lægja öldur og byggja upp starf félagsins.“ „Það er trú stjórnar að með samráði, samtali og boði til félaga um að taka þátt í mótun starfsins muni okkur takast að vinna saman að bættum hag hinsegin fólks hérlendis.“

Þetta samráð og samtal var ekki við þá 85 einstaklinga sem höfðu sagt sig úr félaginu, margir vonsviknir, sárir og reiðir eftir jafnvel áratuga stuðning við samtökin. Sitjandi stjórn hafði netföngi
n hjá þeim öllum en enginn fékk þetta boð. Sitjandi stjórn óskaði ekki eftir samtali eða samráði við þetta ágæta fólk, aðeins þá sem enn voru skráðir eða nýskráðir í félagið.

Í kjölfar stærsta klofning í sögu Samtakanna ´78 virtist sitjandi stjórn telja það vænlega leið „til að lægja öldur og byggja upp starf félagsins“ að tala ekki við þá 85 sem ósáttir voru. Þetta stenst enga skoðun.

Sitjandi stjórn bauð konu að flytja setningarávarp „sem eldri félagskona [14]“ og sagði hún meðal annars: „Það vekur mér líka óhug að heyra af hatursfullri framgöngu þeirra átta sem vilja að boðað verði til nýs aðalfundar og afsagnar núverandi stjórnar og lýsi ég hér með fullu trausti á stjórnina og framkvæmdastjórann og störf þeirra.“ Ekki kemur fram hvaðan hún hefur þetta en Frosti Jónsson sem sat báða fundina með stjórn Samtökunum ´78 fyrir hönd Velunnaranna hafnar þessum ummælum með öllu á Facebook síðu Velunnara Samtakanna ´78 [15] og kvartaði til sitjandi stjórnar yfir því að svona ósannindi væru birt á vef Samtakanna ´78.

Fundurinn var marklaus eins og allar ákvarðanir umboðslausrar stjórnar. Þar með talin skipun lagabreytinganefndar í umboði sitjandi stjórnar sem neitar að fara að lögum Samatakanna ´78. Þessi vinnubrögð standast enga skoðun.

 

Velunnarar Samtakanna ´78 skora aftur á stjórnina

Velunnararnir gátu engan vegin fallist á svar sitjandi stjórnar og í framhaldinu var ákveðið að leita eftir áliti annars lögmanns á lögmæti þess að ganga til aðalfundarstarfa á félagsfundinum 9. apríl og hvort umsókn BDSM á Íslandi stangaðist á við lög Samtakanna ´78.

Meginniðurstöður lögfræðiálitsins [16] eru eftirfarandi:

1.       Það ber að boða til aðalfundar í samræmi við lög félagsins án frekari tafa.

2.       Sú stjórn sem situr nú er umboðslaus og allar gjörðir hennar þar af leiðandi líka.

3.       Nýtt fyrirkomulag kosninga á fundinum 5. mars var ólöglegt.

4.       Ekki voru forsendur fyrir því að BDSM á Íslandi tengdist Samtökunum  ´78.

5.       Ólöglegt var að ganga til aðalfundarstarfa með þeim hætti sem gert var á félagsfundi þann 9. apríl sl.

Að fengnu þessu áliti ákváðu Velunnarar Samtakanna ´78 að skora aftur á sitjandi stjórn að boða til aðalfundar og jafnframt að safna fleiri undirskriftum þar sem ítrekað hafði verið reynt að jaðarsetja hópinn sem fámennan hóp óánægjuradda sem ætti lítinn sem engan hljómgrunn meðal félagsmanna. Á tveim dögum söfnuðust 128 undirskriftir, þar á meðal skrifuðu undir nokkrir fyrrverandi formenn Samtakanna ´78 sem stýrðu þeim í 18 ár samanlagt, fjöldi fyrrverandi stjórnarmanna og félaga sem láta málið sig varða. Áskorunin og undirskriftirnar voru afhentir sitjandi stjórn 18 maí 2016.

Áskorun Velunnara Samtakanna ´78 afhent ásamt undirskriftum 128 einstaklinga

Áskorun Velunnara Samtakanna ´78 afhent ásamt undirskriftum 128 einstaklinga

 

Gengið að þeim sem skrifuðu undir áskorun

Enn bíða Velunnarar Samtakanna ´78 svars við áskoruninni en fyrstu viðbrögð komu 2. júní og vekja enn og aftur furðu á þeim vinnubrögðum sem þessi umboðslausa sitjandi stjórn velur að viðhafa. Í stað þess að hugsa sinn gang og funda síðan með fulltrúum Velunnurum Samtakanna ´78 eins og tíðkast í sambærilegum málum ákváðu þau að fara leið sem okkur er ekki kunnugt um að tíðkist nokkursstaðar og stenst enga skoðun.

Án nokkurs samráðs við Velunnara Samtakanna ´78 lagðist sitjandi stjórn í þá vinnu að grafa upp netföng hjá hverjum þeim sem lagt hafði nafn sitt við áskorunina og boðaði viðkomandi á fund með sitjandi stjórn þann 13. júní 2016 [17] þar sem stjórnin myndi „gera grein fyrir sinni afstöðu í málinu“. Fundurinn var einnig var auglýstur á heimasíðu Samtakanna ´78 [18] og er því opinn öllum. Fulltrúum Velunnara Samtakanna ´78 er ekki boðið til fundar með sitjandi stjórn fyrr en tveim dögum seinna og þá aðeins á stuttan hádegisfund.

Aldrei nokkurn tíma höfum við kynnst því að þeir sem standa fyrir undirskriftum vegna einhvers séu sniðgengnir með þessum hætti og gengið á þá sem skrifuðu undir undirskriftalista.  Listinn innihélt eingöngu nafn og kennitölu en ekki netföng. Hann er enn opinn ef þú vilt leggja nafn þitt við þessa áskorun til stjórnar [19] og er aðgengilegur á facebook síðunni: Velunnarar Samtakanna 78. ásamt nýjustu fréttum af gangi mála.

Krafan er skýr. Samtökin ´78 eiga að starfa eftir þeim lögum sem félagsmenn komu sér saman um og fyrsta skrefið til sátta er að byrja aftur á því að boða til aðalfundar og hefja ferlið með hreint borð.

 

Fyrir hönd Velunnara Samtakanna ´78,

Frosti Jónsson
Hrafnhildur Gunnarsdóttir
Páll Óskar Hjálmtýsson
Kristín Sævarsdóttir
Margrét Sigurðardóttir
Jódís Skúladóttir
Svanfrí&et
h;ur Anna Lárusdóttir
Sigurthor Gunnlaugsson
Ágústa R. Jónsdóttir
Arndís Björg Sigurgeirsdóttir

 

*Birt með góðfúslegu leyfi sitjandi stjórnar Samtakanna '78



[17] Ummæli Unnsteins Jóhannssonar við auglýsingu á fundinum á Facebook: „Nú hefur verið boðið til opins samtalsfundar, þar sem sérstaklega er sent boð á þá um 150 sem settu nafn sitt við áskorun til stjórnar“ https://www.facebook.com/samtokin78/posts/1105043366219977

5,627 Comments

Skrifaðu athugasemd