Höldum áfram með samtalið

By 8. nóvember, 2019maí 21st, 2020Greinar

Þann 6. nóvember sl. birtist grein í Fréttablaðinu eftir Solveigu Láru Guðmundsdóttur, vígslubiskup á Hólum, og Skúla Ólafsson, sóknarprest í Neskirkju. Þar fara þau yfir framlag sitt og annarra presta í baráttunni fyrir því að þjóðkirkjan samþykkti hjónavígslu samkynja para. Við þökkum fyrir þann stuðning sem þau sýndu og sýna enn.

Í grein Solveigar og Skúla er viðruð sú hugmynd að Samtökin ‘78 og þjóðkirkjan haldi sameiginlegt málþing á næsta ári. Á því þingi eigi að fara yfir söguna, þar á meðal þann ágreining sem var uppi innan kirkjunnar. Við í Samtökunum ‘78 fögnum þeirri hugmynd og þykir það rökrétt framhald af afsökunarbeiðni biskups í Kastljósi í síðustu viku. Einnig gerum við okkur grein fyrir því að mikil vinna er framundan, enda hafa kynslóðir samkynhneigðra og fleiri hópa hinsegin fólks fundið fyrir mikilli höfnun af hálfu þjóðkirkjunnar þrátt fyrir velvild margra presta innan hennar raða. 

Af texta greinarinnar mætti ráða að þjóðkirkjan og Samtökin ‘78 hafi unnið þétt saman að undanförnu. Við höfum þó ekki verið í eiginlegu samstarfi, en vissulega fundið fyrir mikilli velvild frá þjóðkirkjunni á undanförnum árum og m.a. hefur verið leitað til okkar um fræðslu til handa fólki innan kirkjunnar. Í greininni er einnig nefnt að formaður Samtakanna ‘78 hafi sagt að „full sátt væri gagnvart kirkjunni eftir þessa afsökunarbeiðni [biskups]“. Rétt er að ég sagðist fagna afsökunarbeiðni biskups, enda væri það tímabært og gott skref í rétta átt. Það hefur þó enn ekki náðst full sátt gagnvart kirkjunni innan raða Samtakanna ‘78 eða innan hinsegin samfélagsins.

Að því sögðu, þá viljum gjarnan halda áfram að vinna að sáttum og erum ánægð með viðleitnina sem kirkjan hefur sýnt að undanförnu. Rétt er að nefna að barátta Samtakanna ‘78 á sínum tíma snerist fyrst og fremst um réttinn til borgaralegs hjónabands, en því stóð kirkjan gegn. Sá hluti sögunnar situr hvað fastast í okkar fólki og hann viljum við gjarnan ræða og gera upp.

Það er gott að þjóðkirkjan vilji hlusta á raddir okkar, stuðla að fjölbreytileika og sýna samstöðu með hinsegin fólki. En traust til stofnana samfélagsins er áunnið og það mun taka tíma og vinnu að byggja aftur upp það traust sem hefur glatast í þessu máli. Samtökin ‘78 eru tilbúin í þá vinnu og við hlökkum til samtalsins sem framundan er. 

Fyrir hönd stjórnar Samtakanna ‘78, 
Þorbjörg Þorvaldsdóttir.