Kirkjan og kynvillan: Kirkjan í ólgusjó samtímans

By 23. nóvember, 2007Uncategorized

Það verður fróðlegt að vita hvaða augum fólk lítur á samþykkt Kirkjuþings árið 2007 um aðildarrétt að hjónabandi eftir svona 20-30 ár. Ég er að hugsa um að stofna veðbanka um það hvort samþykktin verður talin bera vott um þröngsýni og íhaldssemi genginna kynslóða (sem ég veðja á) eða óþolandi frjálslyndi fólks sem misskildi kristna kenningu eða var sama um hana.

Frelsishugmyndir
Við erum auðvitað komin þangað sem við erum komin vegna frelsishugmynda sem eiga rætur sínar með Grikkjum og síðar gyðingum í kristinni trú. Nútímamannréttindahugmyndir eiga sem sagt mikinn grunn í kristinni hugsun – sá sem er í öskustónni rís upp – hann er í Guðs mynd eftir allt saman – hann er jafnrétthár öðrum – hann hefur leyfi til að skilgreina sig sjálfur – hann býr í samfélagi þar sem allir standa jafnir að vígi gagnvart opinberu valdi. Hann er ekki kúgaður af neinum yfirvöldum, hvorki trúarlegum né veraldlegum. Þessar hugmyndir eru kjarninn í mannskilningi Jesú Krists. Manneskjan sjálf er í öndvegi.

Með þessa fyrirmynd, með þennan hugsunarhátt að vopni, losuðu menn sig við þrælahald á sínum tíma eftir mikla baráttu, m.a. við kristna bókstafstrúarmenn. Með þessa fyrirmynd nálguðust samfélögin einnig jafnrétti kynjanna eftir mikla baráttu við biblíufasta menn og m.a. með þessa fyrirmynd að vopni hafa samfélög á norðurslóðum slegið mjög á fordóma gagnvart samkynhneigðum við gríðarleg mótmæli einmitt fjölmargra biblíufastra manna eða bókstafstrúarmanna.

Samþykkt Kirkjuþings
Samþykktin Kirkjuþings íslensku þjóðkirkjunnar árið 2007 er svona:

„Kirkjuþing lýsir stuðningi við meginatriði ályktunar kenningarnefndar um Þjóðkirkjuna og staðfesta samvist og stendur við hefðbundinn skilning á hjónabandinu sem sáttmála karls og konu.“

„Ef lögum um staðfesta samvist verður breytt þannig að trúfélög fái heimild til að staðfesta samvist þá styður Kirkjuþing það að prestum Þjóðkirkjunnar, sem eru vígslumenn að lögum, verði það heimilt. Kirkjuþing leggur áherslu á að frelsi presta í þessum efnum verði virt.“

Kjarninn er sem sagt sá að kirkjan vill taka að sér að gefa fólk af sama kyni saman í staðfesta samvist, en vill halda hinu eiginlega hjónabandi fyrir fólk af gagnstæðu kyni. Karl Sigurbjörnsson biskup leggur mikla áherslu á að þessi samþykkt sé samkomulagsgrundvöllur, sáttargrundvöllur, afrakstur mikillar vinnu innan kirkjunnar þar sem tekist hafa á tvö andstæð sjónarmið. Samþykktin sé málamiðlun í flóknu úrlausnarefni, málamiðlun sem prestar og leikmenn þjóðkirkjunnar ættu að geta unað við. Annars vegar þeir sem vilja ekki undir nokkrum kringumstæðum að kirkjan taki að sér lögformlegu hliðina á staðfestri samvist homma og lesbía. Hins vegar þeirra sem vilja að kirkjan gangi alla leið og mæli með því að hér verði ein hjónabandslöggjöf og kirkjan vígi þá tvo einstaklinga sem vilji ganga í heilagt hjónaband. Vilji gefast hvort öðru, hvor annarri eða hvor öðrum.

Kirkjudeilur vegna homma og lesbía
Hvarvetna hafa málefni homma og lesbía valdið deilum inna kirkna. Fæstar kirkjur hafa þó komist lengra en að kljást um það hvort megi vígja samkynhneigða manneskju til prests eða biskups. Út af hinu síðarnefnda er enska biskupakirkjan t.a.m. á ystu nöf við klofning. Í þeirri deild ensku biskupakirkjunnar sem hefur aðsetur sitt í Bandaríkjunum er fólki slétt sama hver kynhneigð er og það vígir biskupa sem eru í samkynhneigðum hjúskap, en í Suður-Afríkudeildinni vilja menn ekki vita af (virkum!)samkynhneigðum í slíku umsjónarstarfi sem biskupsembættið er. Rowan Williams erkibiskup af Kantaraborg var kosinn þangað, m.a. vegna frjálslyndrar afstöðu sinna til samkynhneigðra, en hefur harðnað í afstöðu sinni, sennilega þar sem hann stendur frammi fyrir klofningi kirkjunnar.

Á slíku vill enginn biskup bera ábyrgð. Í þessu ljósi verður að telja að Karl Sigurbjörnsson hafi haldið vel á málum hérlendis því að þótt fáir séu hæstánægðir með þessa niðurstöðu Kirkjuþings þá tala menn gjarnan um það að mikilvægt skref hafi verið stigið og allri klofningshættu sé bægt frá í bili.
En kemur samþykktin til með að halda? Það er svo aftur önnur saga. Í fyrsta lagi gæti alþingi samþykkt eina hjónabandslöggjöf og þá er kirkjan komin á byrjunarreit. Hún yrði annaðhvort að hafa sömu vígslu fyrir alla eða frábiðja sér alveg að koma að lögformlegu hliðinni á hjónavígslu. Allir yrðu þá gefnir saman hjá veraldlegum vígslumönnum og leituðu sér síðan blessunar hjá kirkjunni sem gæti þá blessað þá sem hún vildi. Þetta yrði trúlega niðurstaðan ef alþingi samþykkti eina hjónabandslöggjöf nú.

Hæpið er að það verði. Íslensk stjórnvöld hafa aldrei farið móti kirkjunni í neinu sem skiptir máli. Þrátt fyrir allt er þjóðkirkjan álitin hafa svo sterk ítök með þjóðinni að þeir sem ætla sér eitthvað í stjórnmálum (eða í framboði til forseta) reyna að vera í vinfengi við hana (svo eru menn auðvitað trúaðir líka). Þess vegna munu menn láta kyrrt liggja, nema þá þingmenn Vinstri-grænna en þeir mega margt sem öðrum leyfist ekki.

Samviskufrelsi presta?
Í samþykkt Kirkjuþings er gert ráð fyrir samviskufrelsi presta, þ.e.a.s. að þeim sé í sjálfsvald sett hvort þeir „gefi saman“ homm
a og lesbíur. Mér finnst sjálfum að taki kirkjan það að sér að „vígja“ lögformlega fólk til staðfestrar samvistar þá verði að líta á alla presta sem löggilda vígslumenn. Í þessum efnum færu þeir með almannavald og kæmust varla upp með að það að hafna sumum en ekki öðrum. Það eru kaflar eins og þessi úr viðauka 12 við Mannréttindasáttmála Evrópu sem gera það að verkum (mín eigin þýðing):

„Lagaleg réttindi skulu tryggð án nokkurs konar mismununar, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, uppruna, félagslegs uppruna, tengsla við minnihluta, vegna eigna, fæðingarstöðu eða annarra atriða.“ (1)

Og: „Enginn sá sem fer með opinbert vald skal mismuna fólki af neinum þeim ástæðum sem getið er um í paragrafi 1.“ (2)

Mín afstaða er sú að sérhver sóknarprestur fari með opinbert vald þegar um er að ræða löggerninga, svo sem það að gefa saman pör til „heilags“ hjónabands eða heilagrar staðfestingar ef til kemur. Þeir geti því ekki mismunað fólki. Hafi með öðrum orðum ekkert „samviskufrelsi“. Trúfélög geta að sönnu valið um hvað þau taka að sér en taki þau eitthvað að sér frá löggjafanum og framkvæmdavaldinu verða þau að framkvæma það án mismununar. Þetta er sjálfsagt umdeilt atriði og hefur guðfræðilega hlið og lögfræðilega hlið fyrir utan hina mannréttindalegu sem náttúrlega umvefur allt. Þarna er í öllu falli viðfangsefni sem þarf að hugsa vel.

Jafnvel þó að niðurstaðan yrði sú að nægilegt þætti að stofnunin sem slík tryggði mismununarlausan aðgang að kirkjustaðfestri samvist, hvað sem liði afstöðu einstakra presta, fyndist mér það ólíðandi tilhugsun að hommar og lesbíur, sem hafa búið við útskúfun aldanna, gætu átt það á hættu að fá „Nei“ innan úr kirkjuganginum. Og það þýðir ekki að byggja samfélag upp á að allir viti hverjir þessir prestar séu og geti forðast þá. Menn hljóta að eiga rétt á sömu þjónustu í sinni sókn og aðrir fá í sínum sóknum.

Má kirkjan þetta?
Hvað um það. Má kirkjan þetta? Er hjónabandið ekki bara fyrir karla og konur? Kardinaltextinn í þessu er í Matteusarguðspjalli, kafla 19, ritningargreinum 4-6. „Hafið þér eigi lesið að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu“, segir þar og „…fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni“. Þessi texti er lesinn við allar giftingar. Þarna gerir Jesús hiklaust ráð fyrir því að hjónabandið sé bara fyrir karl og konu. Hann fjallar hvergi um annað.

Á það ber hins vegar að líta að Jesús bjó ekki til neina lögbók. Það sem eftir honum er haft í siðferðilegum efnum er frekar tilviljunarkennt. Í nefndum texta er hann t.d. að bregðast við spurningu farísea sem vildu reyna hann. Jesús Kristur tekur m.ö.o. ekki afstöðu til hjónabands samkynhneigðra, en gerir greinilega ekki ráð fyrir því. Hann tekur hvergi á málefnum samkynhneigðra. Hann ræðir ekki um staðfesta samvist. Hann fjallar heldur ekki um líknardauða, fóstureyðingar, erfðavísindi, klónun eða um hlýnun jarðar. Hann fer hvergi fram úr þeim tímum sem hann lifir á. Það er einkenni á öllum guðlegum opinberunum.

Málefni samkynhneigðra voru ekki komin á dagskrá, nema þá í úthýsingu, frekar en önnur brýn málefni okkar samtíma. Hann lætur okkur eftir að ráða fram úr þeim og gefur okkur í veganesti almennar ráðleggingar, eins og þær að elska guð og náungann og allt það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Hann var hins vegar róttækur, velti upp steinum hvar sem hann kom. Hann nálgaðist hverja manneskju eins og hún kom fyrir. Fordæmdi ekki, mismunaði ekki. Í dæmisögu hans á Íslandi í dag hefði miskunnsami Samverjinn orðið miskunnsami Litháinn. Ekkert lögmál fékk staðist nema hann gæti blásið í það kærleika. Þess vegna eru þessir herskarar „biblíufróðra“ manna sem vilja gera lögmálsbók úr Jesú Kristi svo broslega fáránlegir.

Kirkjuframúrstefnuleg samþykkt!
Samþykkt Kirkjuþings um staðfesta samvist er þrátt fyrir allt hiklaust kirkjuframúrstefnuleg. Vissulega hefur kirkjan lent í vanda vegna þess að hið veraldlega samfélag (civil society) er komið fram úr henni, má segja, í viðleitni sinni til þess að byggja mismununarlaust samfélag þar sem allir búa við sama rétt, m.a. án tillits til kynferðis og kynhneigðar, en íslenska þjóðkirkjan hefur lagt sig fram um að brúa þetta bil. Lagt sig meira og betur fram en forsvarsmenn kirkna í öðrum löndum og ég vil benda fólki á að samþykkt á borð við þá sem Kirkuþing gerði er utan við ímyndunarafl, hvað þá meira, allra helstu kirkjudeilda veraldar, þ.m.t. kaþólsku kirkjunnar. Það er helst að sænska kirkjan, sem er lúthersk kirkja af sams konar meiði og íslenska kirkjan, sé á sömu slóðum og við og búist er við því að sænska þingið afgreiði eina hjónabandslöggjöf fyrir alla í vetur. Íslendingar, gagnkynhneigðir sem samkynhneigðir, hafa líka gert kröfur til þjóðkirkjunnar sinnar og þannig á það líka að vera. Mín spá er sú að eftir nokkur ár verði hér ein hjónabandslöggjöf og að kirkjan muni vígja samkynhneigða sem gagnkynhneigða undir einum lögum. En það kemur allt í ljós.

Málnotkun ræður framvindunni
&Aac
ute; Kirkjuþingi var dregin til baka tillaga sem var eins og samþykktin nema þar kom fyrir orðið „vígsla“. Og þá kem ég að lykilatriði í framvindu þessa máls. Það verður þegar öllu er á botninn hvolft málnotkun fólks sem leiðir þetta mál til lykta. Að mínum dómi mun fólk tala um „vígslu“ þegar prestur „gefur saman“ fólk í kirkju. Fólk mun nota orðið „hjónaband“ þó að á eyðublaðinu standi „staðfest samvist“. Fólk mun tala um að þeir eða þær séu „gift“ eða „giftar“. Það er engin önnur leið að tala um þessa hluti. Þannig munu hlutirnir sjálfsagt gerast á gólfinu og smám saman fara þeir sem eru á kössunum að tala svona líka.

Hvað hefur þá gerst? Nákvæmlega ekkert annað en að tungumálið leitar iðulega einföldustu og rökréttustu lausnanna.

Mín spá er sú að lítið havarí verði innan kirkju þótt löggjafinn samþykkti eina hjónabandslöggjöf eftir þrjú til fimm ár þegar ofangreind málnotkun hefur fest sig í sessi.

Veigamikið hlutverk kirkjunnar
Það hefur komið mér á óvart í öllu þessu máli hvað íslenska þjóðkirkjan leikur stórt hlutverk meðal þjóðarinnar. Menn lofa hana og menn grýta hana, en allir líta til hennar þegar kemur að siðferðilegum álitaefnum. Kirkjan er líka eini vettvangurinn þar sem einhver alvöru umræða fer fram um siðferðileg álitaefni (með undantekningum í kennslustofum háskólanna, en lítið heyrist frá þeim). Þessi umræða fer ekki fram í stjórnmálaflokkunum. Og kirkjan er eins og samfélagið sjálft. Þar rúmast innan veggja hinar ólíkustu skoðanir. Enda hefði kristindómurinn aldrei náð flugi ef hann gæfi ekki kost á hinum ólíkustu túlkunarmöguleikum og ef hann byði ekki upp á samspil við menningarstrauma hvers tíma sem hann, kristindómurinn sjálfur, hefur átt sinn þátt í að skapa jarðveg fyrir.

Eftirmáli
Þjóðkirkjan hefur farið í fyrirgefningargöngur þar sem hún biðst fyrirgefningar á hörmulegum verkum unnum á tímum hræðilegs tíðaranda sem hún telur sig bera beina eða óbeina ábyrgð á. Hommar og lesbíur hafa mátt þola útskúfun, illmergjað tal, hæðni og hrottaskap um allar aldir, ekki síst fyrir atbeina texta í Biblíunni og óbilgjarnra túlkenda þeirra.

Óteljandi líf hafa brotnað, óteljandi fjölskyldur splundrast, einsemd og angist, kvíði og skömm sest um líf unglinga sem hafa uppgötvað með sjálfum sér samkynhneigð. Því hafa fylgt aðrar hörmungar, jafnvel sjálfsvíg, e.t.v. eftir höfnun föður eða móður eða vina. Jafnvel þeir sem eru ungir að árum nú fengu þau skilaboð að þetta væri ógeðslegt. Kirkjan ber þarna mikla ábyrgð. Sem vörður og forgöngustofnun réttlætis og mannelsku í samfélaginu ber hún höfuðábyrgð. Mér finnst að við ættum að splæsa í svona eina iðrunargöngu fyrir þá sem eru á lífi og munu lifa. Fyrir aðra er það eðli máls samkvæmt orðið of seint.

—-
1 The enjoyment of any right set forth by law shall be secured without discrimination on anyground such as sex, race, colour, language, religion, political or other opinion, national or social origin, association with a national minority, property, birth or other status.

2 No one shall be discriminated against by any public authority on any ground such as those mentioned in paragraph 1.

Copyright © Herðubreið 2007. Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

6,079 Comments

Skrifaðu athugasemd