HInsegin dagar 2002 – Hátíðin nálgast

By 9. júní, 2002Fréttir

Tilkynningar Laugardaginn 10. ágúst höldum við Hinsegin daga, Gay Pride, hátíðlega í miðborg Reykjavíkur. Þetta verður í þriðja sinn sem samkynhneigðir, vinir þeirra, fjölskyldur og stuðningsmenn fylkja liði í gleðigöngu niður Laugaveg til hátíðatónleikanna á Ingólfstorgi. Að hátíðinni standa sex félagasamtök og hreyfingar samkynhneigðra og eru Samtökin ´78 þeirra stærst. Mikinn mannafla þarf til þess að gera hátíðina að veruleika og því lýsum við eftir góðum hugmyndum og framtaki.

Samstarfsnefnd um Hinsegin daga hefur fundað nokkrum sinnum á þessu ári og fjáröflunarnefnd hefur unnið gríðarmikið og gott starf. Afrakstur þess má sjá í glæsilegu miðborgarkorti sem kom út í byrjun maí. Vandað dagskrárrit kemur síðan út um mánaðamótin júní-júlí. Þá veitir Reykjavíkurborg Hinsegin dögum í fyrsta sinn mikilsverðan fjárstuðning á þessu ári en áður hafa stofnanir borgarinnar auglýst myndarlega í bæklingum Hinsegin daga og sýnt þannig stuðning sinn í verki.

Undirbúningur göngunnar að hefjast

Hinsegin dagar hvetja allt það fólk sem hefur hug á að troða upp í göngu sumarsins með sérstök atriði til að hafa samband við göngustjóra Hinsegin daga, Þórarinn Þór, Tóta. Ef uppi eru óskir um að fá ?floatera? eða vagna, þá þarf að bera upp sérstakar óskir um það skriflega sem allra fyrst því að fjöldi vagna er takmarkaður og það kostar bæði tíma og peninga að smíða þá. Sýningaratriði, dansatriði, skilti og borðar: Ef þið hafið sérstakar óskir eða tillögur þar að lútandi, þá hafið samband og stjórnendur göngunnar aðstoða ykkur við að gera drauminn að veruleika. Vagnarnir voru glæsilegir í fyrra og nú stefnum við að því að gera þá enn flottari. Lesbísku línudansararnir, sem fóru í fararbroddi síðasta sumar, munu seint líða hátíðagestum úr minni, og nú er um að gera að fjölga dansatriðum.

Og svo þarfnast gangan nauðsynlega sjálfboðaliða með alls kyns kunnáttu í handraðanum til þess að vinna að þessu stóra og flókna verkefni. Samstarfsnefndin hefur útvegað vinnuhúsnæði í Brautarholti 1 og nú er um að gera að sameina kraftana.

Netfang Tóta göngustjóra er thorarinn@dice.is

5,846 Comments

Skrifaðu athugasemd